Innlent

Ekki til peningur fyrir nýjum kennurum

Jón Atli Benediktsson.
Jón Atli Benediktsson. vísir/anton brink/
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla íslands segir brýnt að auka fjárframlög til háskólans á næstu árum til að skólinn geti sinnt hlutverki sínu. Hagræðingarkröfur undanfarinna ára hafi gert það að verkum að skólinn eigi í erfiðleikum með að ráða inn nýja kennara og það sé byrjað að bitna á kennslu í fjölmörgum deildum - þar á meðal íslensku og jarðvísindum.

„Það er vandi á háskólastiginu. Háskólarnir hafa verið undirfjármagnaðir mjög lengi og Háskóli Íslands, það hefur ítrekað komið fram í úttektum, alþjóðlegum úttektum um háskólann, að hann er undirfjármagnaður,“ sagði Jón Atli í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Og það sem er kannski að gerast er að við horfum fram á það að nýliðun er erfiðari þegar prófessorar hætta eftir að hafa starfað lengi við skólann, þá er ekki hægt að ráða þá aftur eða aðra inn í staðinn.“

Þetta sé þegar byrjað að bitna á kennslu í fjölmörgum deildum.

„Við getum ekki fest okkur í ráðningum nema að mjög vel ígrunduðu máli og þetta þýðir það að við getum ekki ráðið inn fólk þegar mjög mikilvægir kennarar eru að hætta. Þá eigum við í erfiðleikum. Ég get nefnt dæmi um slíkar greinar; jarðvísindi er eitt dæmi þar sem við höfum ekki getað ráðið inn fólk á undanförnum árum til þess að taka við af fólki sem lætur af störfum. Íslenska er annað dæmi. Báðar greinar eru gríðarlega mikilvægar fyrir íslenskt samfélag,“ segir Jón Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×