Innlent

Tekjuhærri ferðamenn ekki að skila sér

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Dregið hefur úr tekjuvexti í ferðaþjónustu og helst hann ekki í hendur við fjölgun ferðamanna. Gögn um neyslu og fjölda ferðamanna sýna að markmið um að ná tekjuhærri ferðamönnum til landsins hafi ekki náðst.

Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna minni vöxt en var á síðasta ársfjórðungi. Þá námu útflutningstekjur greinarinnar 128 milljörðum króna og jukust um 8,9% á tólf mánaða grundvelli.

Ef munurinn á milli tímabila er skoðaður á föstu gengi nemur aukningin 32% milli ára. Til samanburðar var vöxturinn á fyrsta ársfjórðungi 47% og 55% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Ljóst er því að dregist hefur úr vextinum. 

Ferðamönnum fjölgar hins vegar áfram á sama tíma og tekjuvöxturinn minnkar. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar telur ástæðu til að veita þróuninni athygli.

„Við erum að fá minna út úr hverjum ferðamanni og auðvitað er það ekki okkar markmið. Við höfum verið að vinna með stjórnvöldum í markaðssetningu á því að fá betur borgandi ferðamenn til landsins; sem eru tilbúnir að dvelja lengur, gera meira og njóta betur. Svo virðist sem við séum ekki að fá þá ferðamenn miðað við þessa þróun," segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þá hefur einnig dregið jafnt og þétt úr fjölgun gistinótta. Gistinóttum fjölgaði um 15% á fyrstu sjö mánuðum ársins á sama tíma og ferðamönnum fjölgaði um 31%. Vöxturinn er drifinn áfram af hótelum á Suðurnesjum en samdráttur mælist á Austurlandi.

Bendir þetta annað hvort til skemmri dvalartíma eða aukinnar ásóknar í annars konar gistiþjónustu. Helga segir ferðamenn virðast eyða minna í gistingu, afþreyingu og mat.

„Þeir eru að draga úr í ýmiss konar afþreyingu. Menn eru að spara við sig í mat og við sjáum það í öðrum tölum bankanna að það er fyrst og fremst vöxtur hjá lágvöruverslunum í veltu til ferðamanna," segir Helga.

Hún segir blikur á lofti og telur mikilvægt að staldra við. „Við erum ekki að horfa á neitt hrun en við erum að horfa á ákveðinn samdrátt á ákveðnum sviðum, sem segir okkur að við séum kannski ekki alveg að sækja þá ferðamenn sem við helst myndum vilja gera," segir Helga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.