Innlent

Zúistar vilja fleiri en upplýsa ekki fjárhag

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism, lofar liðsmönnum trúfélagsins áframhaldandi útgreiðslu sóknargjalda.
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism, lofar liðsmönnum trúfélagsins áframhaldandi útgreiðslu sóknargjalda.
Ágúst Arnar Ágústsson, formaður zúista, svarar engum spurningum um fjárhag trúfélagsins sem auglýsir nú eftir nýjum félögum á Facebook og með bæklingum sem bornir eru í hús. Fólk er beðið að skrá sig fyrir 1. desember. Við þann dag miðast útgreiðsla sóknargjalda næstu tólf mánuðina.

Zúistar greiddu fyrr í þessum mánuði 19.976 krónur til þeirra meðlima félagsins sem um það sóttu fyrir 15. nóvember síðastliðinn. Um er að ræða endurgreiðslu á sóknargjöldum frá ríkinu sem forverar Ágústs við stjórnvölinn í trúfélaginu lofuðu meðlimum sem gengu til liðs við zúista í stríðum straumum fyrir um tveimur árum. Ágúst segir upphæðina miðast við sóknargjöldin allt árið 2016 og það sem af er árinu 2017.

Útkljáð var í byrjun október að Ágúst færi með forræði zúista. Tók hann þá við um 53 milljónum króna í sóknargjöld sem haldið hafði verið eftir í ríkissjóði á meðan greitt var úr því hver færi fyrir félaginu. Ágúst segir að tilkynnt hafi verið 24. október að zúistar myndu hefja endurgreiðslur í nóvember.

Auglýst er eftir nýjum zúistum á Facebook og með bæklingum í hús.
„Þann 3. nóvember var svo tilkynnt að opnað hafi verið fyrir umsóknir um endurgreiðslu,“ segir í svari Ágústs. Hann vísar á bug gagnrýni um að skammur tími hafi gefist fyrir félagsmenn til að sækja um endurgreiðslu. Lokað var fyrir umsóknir 15. nóvember.

„Það umsóknarferli stóð yfir í tvær vikur og fengu allar þessar tilkynningar mikla fréttaumfjöllun á öllum helstu fjölmiðlum landsins. Umsóknarformið var hannað til að vera auðvelt að fylla út og auð­skiljan­legt. Einnig hafa tilkynningarnar verið birtar á heimasíðu félagsins og Facebook-síðu félagsins,“ bendir Ágúst á.

Vel yfir tvö þúsund manns voru skráðir sem zúistar þegar endurgreiðslurnar hófust. Ágúst svarar því ekki hversu margir sóttu um endurgreiðslu og hversu margir af þeim fengu ekki greiðslu.

Ágúst segir mikið af villandi upplýsingum hafa verið í umferð. „Hefur félagið reynt að koma réttum upplýsingum á framfæri og loka ótengdum síðum sem hafa verið að dreifa slíku undir ímynd félagsins,“ segir forstöðumaðurinn.

Félagsmenn zúista gátu valið að sóknargjöld þeirra rynnu til góðgerðarmála í staðinn fyrir að fara inn á þeirra eigin bankareikning. „Í kring­um sjö prósent völdu þann mögu­leika,“ svarar Ágúst. Tvær og hálf milljón króna hafi verið lögð til hliðar vegna þessa. Barnaspítali Hringsins fékk 1,1 milljón króna frá zúistum í lok október.

Sem fyrir segir fást ekki upplýsingar um heildarmyndina af fjárhag zúista, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. „Skoðað verður að gefa út nákvæmari tölur síðar,“ segir Ágúst.

Boðað hafði verið að þeir sem myndu sækja um endurgreiðslu án þess að eiga tilkall til hennar kynnu að verða kærðir til lögreglu. „Nei, ég á ekki von á því, umsóknarferlið gekk mjög vel,“ svarar Ágúst aðspurður hvort einhverjir verði kærðir.

Hins vegar hafði Ágúst boðað að kæra kynni að verða lögð fram á hendur starfsmanni sýslumannsins á Norðurlandi eystra vegna stjórnsýslu hans. „Ég get staðfest það að félagið hefur einnig kært starfsmann sýslumanns til lögreglunar og vísum við í fyrri tilkynningu vegna frekari upplýsinga.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.