Innlent

Höfuðkúpubrotin eftir slys í síðasta ökutímanum fyrir vélhjólapróf

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Njáll Gunnlaugsson hlúði að nemandanum eftir slysið.
Njáll Gunnlaugsson hlúði að nemandanum eftir slysið. vísir/eyþór
Ung kona sem ók á vélhjóli utan í flutningabíl við Klettagarða í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag mun vera á batavegi.

Slysið varð í síðasta ökutíma konunnar áður en hún átti að taka vélhjólapróf. Að sögn Njáls Gunnlaugssonar ökukennara, sem hlúði að nemanda sínum á slysstað, virðist sem fát hafi komið á konuna þegar flutningabíllinn kom aðvífandi þannig að hún missti vald á hjólinu og endaði utan í bílnum.

„Sem betur fer var hún með nýjan hjálm; hún var fyrsta manneskjan til að nota hann og vonandi hefur það haft eitthvað að segja. Hún var líka vel gölluð,“ segir Njáll sem kveður stúlkuna þó hafa höfuðkúpubrotnað illa. „Ég passaði bara upp á að hún hreyfði sig ekki fyrr en sjúkrabílinn kom.“

Njáll segir ungu konuna enn vera illa slasaða á gjörgæslu Landspítalans. „En ég fékk fréttir af henni í gær [sunnudag] og þetta horfir til betri vegar eins og staðan er núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×