Innlent

Rukka Norðursiglingu í deilu um gjaldtöku

Haraldur Guðmundsson skrifar
Norðursigling rekur hvalaskoðun og veitingasölu á Húsavík.
Norðursigling rekur hvalaskoðun og veitingasölu á Húsavík. Vísir/Stefán
Norðursigling hefur ekki greitt hafnasjóði Norðurþings farþegagjöld frá ársbyrjun 2015 og mun sveitarfélagið að óbreyttu leita til dómstóla. Fyrirtækið telur gjaldtökuna ólögmæta en það skuldar hafnasjóðnum rúmar 30 milljónir króna. Þá hefur hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík ekki heldur greitt gjöldin fyrir 2015 og einn reikning frá árinu 2010.

Ágreiningur er á milli sveitarfélagsins og Norðursiglingar, sem selur hvalaskoðunarferðir frá Húsavík, um stofn gjaldtökunnar og upphæð. Fyrirtækið fór árið 2011 fram á endurgreiðslu á farþegagjöldum. Á fundi hafnanefndar Norðurþings á mánudag kom fram að önnur fyrirtæki sem stunda farþegaflutninga við Húsavíkurhöfnina hafi greitt gjöldin. Uppbygging þar hafi verið umtalsverð síðastliðin ár og var meðal annars nefnt að flotbryggjum hafi verið fjölgað og höfnin dýpkuð. Stjórnendum hafnarinnar hafi því verið falið að vinna áfram með lögfræðingum og sækja málið.

„Þessi gjöld hafa verið nýtt í almennar hafnarbætur en okkar sjónarmið hefur verið að þau megi einungis nota til aðstöðu fyrir farþega. Við erum í vináttu að ræða þessi mál og leita lögfræðiálita en við teljum að skýrar reglur séu fyrir því í hvað eigi að nota þessi gjöld. Við teljum að Norðurþing hafi ekki getað sýnt fram á í hvað peningarnir verða notaðir og þá hvort upphæðin sem verið er að leggja á sé rétt,“ segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Norðursiglingar.

Samkvæmt upplýsingum frá hafnarstjórninni var innheimta farþegagjalda ekki í föstum skorðum hjá höfnum Norðurþings árið 2015 og nokkru fyrr. Það geti skýrt af hverju Gentle Giants hafi ekki heldur greitt það ár.

„Þetta er bara misskilningur. Ég ætla ekki að ræða það við þig,“ segir Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri, markaðsstjóri og skipstjóri hjá Gentle Giants, spurður um afstöðu fyrirtækisins gagnvart kröfu Norðurþings. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×