Ferli Mo Farah á hlaupabrautinni er lokið en hann vann í gær sigur í fimm þúsund metra hlaupi á Demantamóti í Zürich. Hann náði að koma fram hefndum gegn nýkrýndum heimsmeistara í greininni.
Eþíópíumaðurinn Muktar Edris vann heldur óvænt gull á HM í London fyrr í þessum mánuði þegar Farah keppti á sínu síðasta stórmóti á ferlinum og það á heimavelli.
Farah og Edris áttu æsilegan lokasprett í hlaupinu í gær en svo fór að Farah hafði nauman sigur á þrettán mínútum og 6,06 sekúndum.
„Ég vildi vinna og það er ótrúlegt að það hafi tekist. Ég lagði mikið á mig. Ég mun sakna hlaupabrautarinnar, fólksins og þeirra sem styðja mig,“ sagði Farah sem ætlar nú að snúa sér að götuhlaupum.
„Ég hef notið þess að hlaupa á leikvöngum í mö0rg ár en nú ætla ég fyrst og fremst að njóta þess að vera með fjölskyldu minni.“

