Innlent

Ölvaðir menn til trafala

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í kvöld og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í kvöld og nótt. VÍSIR/VILHELM
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa haft í nógu að snúast við að eltast við menn í annarlegu ástandi í nótt og í dag. Þar að auki var eitthvað um þjófnað og innbrot. Lögreglan þurfti að sinna tilkynningum um nokkra menn sem voru að ónáða fólk og minnst tvo sem voru einfaldlega sofandi. Annar þeirra svaf ölvunarsvefni á veitingastað í miðborginni og þurfti lögreglan að hafa afskipti af honum á öðrum tímanum í dag.

Hinn var sofandi í bíl fyrir utan leikskóla á höfuðborgarsvæðinu þegar lögregluþjóna bar að garði skömmu eftir klukkan þrjú í dag. Maðurinn reyndist undir áhrifum áfengis og var bíllinn sem hann svaf í ótryggður.

Seint í gærkvöldi barst einnig tilkynning frá íbúa húss um mann sem lá í garði hússins. Sá var í annarlegu ástandi, samkvæmt dagbók lögreglunnar, en ekki liggur fyrir hvort hann hafi einnig verið sofandi. Eftir að lögregluþjónar ræddu við hann var honum keyrt heim til sín.

Lögreglunni barst tilkynning um hóp manna í Kópavogi í dag og var talið að einhverjir þeirra væru með barefli. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna ástands.

Tilkynnt voru innbrot í bæði hús og bíla í dag þar sem munum hafði verið stolið en einnig bárust tilkynningar um þjófnaði úr íþróttahúsi og hóteli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×