Gunnar Logi Malmquist Einarsson, einn stofnenda fyrirtækisins, segir að aðgerðir heilbrigðiseftirlitsins hafi komið þeim á óvart og málið hafi komið upp á erfiðum tíma fyrir fyrirtækið, sem opnaði ísbúð 19. ágúst síðastliðinn. „Þetta hafði mikil áhrif og kom á mjög leiðinlegum tíma,“ segir hann. Vegna þessa hafi þurft að farga tæplega 50 lítrum af rjómaís.
Aðalástæðan, að sögn Gunnars, fyrir því að ísinn var innkallaður var að fyrirtækið hafði ekki leyfi til að framleiða í ísbúðinni ís til að selja í verslanir. „Núna notum við tilraunaeldhúsið hjá MATÍS og framleiðum þar ísinn fyrir verslanirnar,“ segir hann.
Þær upplýsingar fengust frá fulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að kjarninn í reglum um merkingar á umbúðum sé að þær séu ekki villandi fyrir neytendur. Umrætt fyrirtæki hafi ekki getað fært sönnur á þær fullyrðingar sem fram komu á umbúðunum. Þar eigi aðeins að birta staðreyndir um vörur, svo neytendur geti kynnt sér innihald þeirra. Um sé að ræða reglugerð á vegum Evrópusambandsins sem innleidd hafi verið hér. Fullyrðingin um ástina væri ein og sér ekki tilefni til að stöðva dreifingu á vörunnar.

Ísleifur heppni er fjölskyldufyrirtæki sem starfrækir ísbúð á Hlemmi og selur ís í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Frú Laugu. Gunnar rekur fyrirtækið með föður sínum en þrjár systur hans eru einnig í eigendahópnum. Gunnar, sem er matreiðslumaður, segir að rjómaísinn frá fyrirtækinu njóti þeirrar sérstöðu að vera frystur með fljótandi köfnunarefni. Í honum sé miklu minna loft en í ís sem sé frystur á hefðbundinn máta. Ísinn sé bæði þéttari og bragðmeiri fyrir vikið. Hann segir mikilvægt fyrir rekstur fyrirtækisins að selja ís í búðum, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.