Innlent

Ný mislæg gatnamót tekin í notkun á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 1,1 milljarður króna.
Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 1,1 milljarður króna. Vegagerðin/Hersir Gíslason
Ný mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar verða tekin í notkun á morgun föstudag klukkan 13:00.

Sérstök athöfn verður við gatnamótin að vestanverðu þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra mun formlega opna gatnamótin með aðstoð vegamálastjóra.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að auk þeirra verði viðstaddir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og fulltrúar frá Hafnarfjarðarbæ, Vegagerðinni, verktakanum og aðrir sem komið hafa að verkinu. Framkvæmdir hófust í mars síðastliðinn. Ýmis konar frágangsvinnu eigi þó eftir að vinna og verður lokið við þá vinnu á vormánuðum 2018. Heildarkostnaður er áætlaður um 1,1 milljarður króna.

„Verkið felst í gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar við Krýsuvíkurveg. Til framkvæmdanna teljast einnig breytingar á Krýsuvíkurvegi, gerð tengivegar að Suðurbraut og tengivegar að Selhellu. Einnig er innifalin gerð göngu- og hjólastígs meðfram Suðurbrautartengingu og hraðatakmarkandi aðgerðir á Suðurbraut. Þá er gerð hljóðmana við Reykjanesbraut í Hafnarfirði hluti verksins. Auk þess eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja og landmótun,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×