Innlent

Mennirnir sem voru eftirlýstir um allt land komnir í leitirnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi
Mennirnir sem grunaðir eru um sölu á fíkniefninu MDMA eru komnir í leitirnar. Annar þeirra var handtekinn á fimmtudagskvöld en hinn á föstudagsmorgun, báðir í Reykjavík. Þeir hafa báðir játað sök og var sleppt að loknum yfirheyrslum.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málsins á lokametrum.

Fyrir ellefu dögum, fimmtudaginn 23. nóvember síðastliðinn, fundust tvær fimmtán ára gamlar stúlkur meðvitundarlausar á tröppum í miðborg Reykjavíkur. Þær voru fluttar á Landspítalann en grunur var um að þær hefðu tekið inn fíkniefnið MDMA.

Þær komust til meðvitundar daginn eftir en Guðmundur Páll Jónsson sagði í samtali við Vísi um það leyti að stúlkunum hefði verið bjargað á síðustu stundu.

Lögreglan hóf leit að manneskjunni sem seldi stúlkunum efnið sem líkur voru taldar á að væri eitrað.

Miðvikudaginn 29. nóvember voru tveir menn eftirlýstir hjá lögreglu um allt land vegna málsins. Þeir voru handteknir sem fyrr segir síðastliðið fimmtudagskvöld og föstudagsmorgun. Annar mannanna er á átjánda ári en hinn um þrítugt.

Guðmundur Páll segir þá hafa verið handtekna vegna ábendingar sem barst lögreglu.

Lítilræði af fíkniefnum fannst á þeim stöðum sem þeir voru handteknir á.

Hafa þeir játað að hafa staðið að sölu á MDMA að sögn Guðmundar.

Hann segir að málið verði sent von bráðar á ákærusvið lögreglunnar en enn á eftir að yfirheyra tvo einstaklinga sem voru í partíinu þar sem stúlkurnar tvær innbyrtu efnið.


Tengdar fréttir

Eftirlýstir um land allt

Lögregla óttast ekki að tveir menn sem grunaðir eru um sölu á MDMA til ungra stúlkna séu farnir úr landi.

MDMA-sölumaðurinn í felum

Lögregla hvetur manninn til að gefa sig fram og útilokar ekki að annar maður hafi líka komið að sölu efnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×