Lífið

Telur Ragnar Önundarson hafa sætt ósanngjarnri meðferð: „Góða fólkið er gjörsamlega búið að missa vitið“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu.
Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu. Vísir
Einn af lykilleikmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Ragnar Sigurðsson, er verulega ósáttur við hvernig viðbrögðin voru við ummælum Ragnars Önundarsonar, fyrrverandi bankastjóra, í garð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ragnar lætur þessa skoðun sína í ljós á Twitter en þar segir hann umræðuna í garð Ragnars Önundarsonar ekki hafa verið honum að skapi.

„Meðferðin sem Raggi Önundar hefur fengið fyrir nákvæmlega ekki neitt, er gjörsamlega óásættanleg,“ skrifar Ragnar og bætir svo við: „Góða fólkið er gjörsamlega búið að missa vitið.“

Ragnar Önundarson.Vísir


Síðastliðið þriðjudagskvöld birti Ragnar Önundarson mynd af Áslaugu Örnu á Facebook-síðu sinni og hvatti hana um leið til að huga að ímynd sinni.

Ragnar gerði það í kjölfar þess að Áslaug Arna mætti í Kastljósið til að ræða kynferðislega áreitni í garð kvenna í stjórnmálum. Áslaug Arna er ein hundraða kvenna sem skrifað hafa nafn sitt undir áskorun til stjórnmálaflokkanna á að taka á kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni karla í íslenskum stjórnmálum.

Ragnari var svarað fullum hálsi af þeim sem gagnrýndu þessi skrif hans, þar á meðal Áslaug Arna sem spurði hann hreint út hvað hann ætti í raun við.

Benti Ragnar henni þá á að leita ráða hjá almannatengli en honum var svarað af fjölda fólks sem gagnrýndi hann fyrir þessi skrif og sagði hann eitt dæmi þess hversu erfitt er fyrir konur að þrífast í karlægu umhverfi stjórnmála.

„Viðhorf forpokaðra valdakarla sem telja sig í stöðu til að segja öðrum hvernig þeir eigi að vera. Annars bjóði viðkomandi einfaldlega áreitni heim,“ skrifaði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, meðal annars í athugasemd við færslu Ragnars um málið.

Rúmlega þrjú hundruð manns hafa deilt færslu Ragnars en um undantekningu var að ræða ef sá sem deildi henni var sammála honum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.