Innlent

Sjálfstæðismenn segja starfskjaranefnd hjá OR vera peningasóun

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í OR.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í OR. Vísir/Vilhelm
„Miðað við þau verkefni sem stjórnarformaður og stjórn þurfa að sinna þá yrði ekki mikil viðbót að skoða laun þessara tveggja ágætu manna,“ segir borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon sem á síðasta stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur ítrekaði þá skoðun sína að starfskjaranefnd fyrirtækisins væri óþörf og sóun á fjármunum.

Þessi þriggja manna starfskjaranefnd, sem Kjartan á sjálfur sæti í núna, hefur fyrst og fremst það verkefni að fjalla um kjör forstjóra og innri endurskoðanda OR.

Nýverið fól stjórn OR starfskjaranefnd sjálfri að skoða þörf OR á að hafa starfskjaranefnd og skoða aðra valkosti, nokkuð sem Kjartan viðurkennir að sé vissulega sérstakt.

Niðurstaða meirihluta nefndarinnar var að halda óbreyttu fyrirkomulagi. Starfskjaranefndin lifði því af og samþykkti stjórn OR tillögu nefndarinnar á síðasta stjórnarfundi. Við það tilefni bókuðu Kjartan og Marta Guðjónsdóttir þá skoðun sína að ekki væri þörf á sérstakri nefnd til að fjalla um kjör tveggja manna, með þeim kostnaði sem slíku fylgdi.

„Nefndin hefur verið starfrækt frá 2013. Við höfum bókað nokkrum sinnum að við teljum starfskjaranefnd óþarfa og þetta er ekki mikið verkefni sem hún hefur með höndum, segir Kjartan.

Í dag fá nefndarmenn 44.762 krónur fyrir hvern fund og formaðurinn tvöfalda þá upphæð. Kostnaður við hvern fund þessarar þriggja manna nefndar er því 179 þúsund krónur.

„Það er svo sem ekkert mikill kostnaður en ég tel að það væri skýrara að hafa þetta eins og þetta var,“ segir Kjartan. Hann bendir á að nefndin fundi minnst einu sinni á ári og síðan eftir tilefni. Því sé um að ræða óþarfa kostnað við verk sem færi betur á að fela stjórnarformanni og stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×