Innlent

Vill að örorkubætur verði að lágmarki 390.000 krónur á mánuði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir nýkjörinn formaður Öryrkjabandalagsins ræddi málefni öryrkja í Bítinu í dag.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir nýkjörinn formaður Öryrkjabandalagsins ræddi málefni öryrkja í Bítinu í dag. vísir/hanna
„Mér lýst vel á starfið sem slíkt og það sem framundan er en þetta er mikil barátta og við höfum farið svolítið halloka undanfarin ár og áratug og kjör okkar hafa versnað meira og meira. Við höfum orðið eftir,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir nýkjörinn formaður Öryrkjabandalagsins í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í dag. „Það er heilmikið sem þarf að laga.“

Sumir flokkar ekki með öryrkja á stefnuskrá

Þuríður Harpa sagði að öryrkjar væru talsvert mikið undir og þeirra lífeyrisgreiðslur hafi engan vegin verið í takt við launaþróun. Þegar talið barst að kosningaloforðum í kosningabaráttunni segir Þuríður Harpa:

„Ég gat ekki séð mikið af loforðum gagnvart okkur öryrkjum nema náttúrulega Flokkur fólksins,“ og bendir á að flokkurinn sé stofnaður af fólki sem hafi skilning á þessum  málum. Hún segir að margir flokkar hefðu mátt tala meira um breytingar í þágu öryrkja

„Sumir voru bara hreinlega varla með okkur á stefnuskránni.“

Hún segir að það sé dæmigert fyrir öryrkja að vera með 200.000 til ráðstöfunar á mánuði.

„Fólk er að velja á milli, hvort kaupir þú í matinn eða kaupir lyfin þín?“

Hún bendir þó á að ekki allir öryrkjar taki lífeyrisgreiðslur, eins og hún sjálf. „Þegar ég slasast og lamast þá er ég það heppin að ég get farið aftur til minnar vinnu, ég hef þá starfsorku og getu til þess að sinna mínu starfi. Ég þarf ekki að taka lífeyrisgreiðslur í dag.“ 

390 þúsund að lágmarki

Þuríður Harpa segir margir hafi ekki fulla starfsorku og þurfi því á bótunum að halda. Af þeim þarf svo að borga fæði, húsnæði, ferðakostnað, lækniskostnað, lyf og fleira. En hver er þeirra krafa

„Við höfum verið að tala fyrir því að við höfum 390.000 krónur á mánuði fyrr skatt, það sé eiginlega algjört lágmark að mínu mati, og okkar mati. Það er eiginlega eðlileg krafa miðað við það sem var einu sinni í gangi og hefði átt að reiknast upp.“

Nefnir Þuríður Harpa einnig að hækka mætti persónuafslátt og auka möguleika öryrkja til að ná sér í aðrar tekjur án þess að skerða bæturnar krónu á móti krónu. Skerðingarnar setji öryrkja í verri stöðu.

„Þeir eru settir í þá gildru, að vera bara fastir í fátækragildru eiginlega. Þeir geta ekki farið á vinnumarkaðinn vegna þess að það borgar sig ekki fyrir þá. Þegar þú gerir það ekki þá ertu bara fastur í þessu að fá greiðslur frá Tryggingarstofnun og lífeyrissjóðunum.“

Íslenskt þjóðfélag að framleiða öryrkja

Í starfi sínu ætlar Þuríður Harpa að leggja áherslu á mannréttindi, velferð, mannúð og kjör lífeyrisþega. Hún er bjartsýn og vonar að örorkubæturnar verði hækkaðar. „Ég trúi því að stjórnvöld vilji í raun að allir sem búa á Íslandi lifi við mannsæmandi kjör.“

Hún segist ekki trúa því að fólk sé að stefna að því að verða öryrkjar til að misnota kerfið.

„Hins vegar held ég að við sem samfélag og þjóðfélag þurfum að fara aðeins að skoða þessa þjóðfélagsgerð hérna hjá okkur. Ég held að við séum í rauninni að framleiða öryrkja með því að koma ekki til móts við fólk á þeim stigum sem það er að veikjast eða álagið að verða of mikið á fjölskyldur.“

Viðtalið við Þuríði Hörpu má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrr neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×