Innlent

Reyndi sjálfsvíg vegna eineltis á Húsavík: „Hoppaðu fram af kletti og drepstu“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Móðir stúlkunnar segir þöggun um einelti ís samfélaginu á Húsavík. Hún hvetur foreldra til að ræða við börn sín.
Móðir stúlkunnar segir þöggun um einelti ís samfélaginu á Húsavík. Hún hvetur foreldra til að ræða við börn sín. Vísir/Vilhelm
Sextán ára stúlka hefur verið lögð í gróft einelti í átta ár. Líðan hennar varð svo slæm að á dögunum reyndi hún að taka eigið líf. Eftir það hélt hún samt enn áfram að fá ljót skilaboð og illkvittnar athugasemdir frá fólki úti á götu. Foreldrar hennar, Sigrún Birna Árnadóttir og Almar Eggertsson, tjáðu sig um sjálfsvígstilraunina og eineltið á Facebook til þess að vekja bæjarbúa til umhugsunar.

Í samtali við Vísi segir Sigrún að nauðsynlegt sé að opna þessa umræðu.

„Ég átti ekki von á þessum viðbrögðum, ég ætlaði bara að skrifa þetta fyrir fólkið hér. Ég bað samfélagið bara um hjálp.“

Sigrún segist hafa skrifað pistilinn því hún hafi einfaldlega ekki getað þagað lengur. Þar skrifaði hún meðal annars:

 „Síðan við fluttum aftur heim frá Danmörku fyrir átta árum hefur dóttir okkar lent í miklu einelti og mikilli hunsun í okkar samfélagi af krökkum og fullorðnum! Við eitt sinn settum af stað eineltis mál í skólanum sem hún var í enn ekki gekk það nú vel að okkar mati því þar fengum við bara að heyra að margir væru sammála um það að hún kæmi sér í þetta sjálf! Sú skólaganga endaði þannig að við tókum hana úr þessum skóla og færðum hana í annan þar sem henni leið mikið betur. Hún er í Laugaskóla núna og þar hefur henni gengið vel í námi, um leið og dóttir okkar kemur hingað í bæinn eða fær sér göngutúr þá fær hún orð eins og hoppaðu fram af kletti og drepstu!!! Og mörg önnur hræðileg orð og hræðilegar sögur sem eru sagðar um hana en eru ekki sannar!!!“

Fékk áfram ljót skilaboð eftir sjálfsvígstilraunina

Í Facebook færslunni sem hún skrifaði til samfélagsins á Húsavík, spyr Sigrún hvort nauðsynlegt sé fyrir þau að flytja svo dóttir þeirra fái frið og geti átt möguleika á betra lífi.

„Þegar við komum heim af sjúkrahúsinu og fer að líða á kvöld fær hún sér göngutúr og hittir þar einstaklinga sem öskra til hennar af hverju gast þú ekki bara drepist!! Ég á eingin orð yfir þetta!“

Sigrún segir að það hafi verið hryllilegt að sjá að eftir að dóttir þeirra kom heim af sjúkrahúsinu hafi hún haldið áfram að fá ljót skilaboð.

„Eftir að hún kom heim frá sjúkrahúsinu fékk hún skilaboð frá unglingum, bæði ókunnugum og einhverjum sem hún þekkir. Hún neitar að fara aftur í skólann því fólk er að senda henni að hún sé bara athyglissjúk að hafa gert þetta, tekið þessar töflur. Þetta er svo hryllilegt, að fá svona héðan og þaðan. Hryllilega hlýtur þessu fólki að líða illa, hún er búin að eiga nógu erfitt í öll þessi ár,“ segir Sigrún í samtali við Vísi.

„Hún hefur verið með allar klær úti í leit að vinum, hún er 16 ára og hefur verið að tala við 13 og 14 ára, bara til að finna einhvern sem vill vera með henni. Hvað er lífið án vina?“

Fjölskyldan er þakklát fyrir kveðjurnar sem þau hafa fengið vegna pistilsins og foreldrarnir segja að þær hjálpi þeim að vera sterk og berjast fyrir því að dóttir sín eigi gott líf í samfélaginu á Húsavík. Sigrún segir að dóttir hennar hafi fengið að heyra frá krökkum að þau þori ekki að vera með henni, sitja hjá henni eða sjást með henni af ótta við að vera líka strítt. Skólafélagar hafi fært borðin sín til að þurfa ekki að sitja hjá henni, til að þeirra borð snerti ekki borð dótturinnar.

„Þetta er ekkert bara hennar aldur sem er búinn að leggja hana í einelti, líka yngri og eldri nemendur. Bílar á rúntinum hérna á Húsavík skrúfa niður rúðuna og gefa henni fokk-merkið. Maður er bara orðlaus.“  

Þöggun í samfélaginu

Sigrún gagnrýnir harðlega viðbrögð skólans og að kennarar megi ekki tjá sig um málið.

„Samt var eitt ótrúlegt sem gerðist í gær. Einn kennari í skólanum birti mynd af skólabyggingunni á Facebook og skrifaði: „Mikið er þetta falleg bygging og frábært starf sem þarna er unnið innandyra og margt skemmtilegt að gerast.“ Ég skrifaði við myndina að þarna væri þó líka einelti og gerði dapran karl og hjarta en hann tók út athugasemdina mína. Ég  ætlaði ekki að trúa því og skrifaði þetta svo aftur en því var líka eytt út en ég setti það aftur inn.“

Sigrún sendi viðkomandi kennara einkaskilaboð en fékk ekkert svar. Hún segir þöggun um einelti á Húsavík og í Borgarhólsskóla

„Algjörlega, þeir segja að það sé ekkert einelti þarna. Skólastjórinn hefur sagt að það sé ekkert einelti þar. Við erum búin að heyra sögur um fólk sem hefur viljað fara í skólann og tala og fær svörin að það sé ekkert einelti þar.“

Nefnir hún sem dæmi að maður hennar Almar og vinur hans hafi verið gerendur í eineltismáli í æsku. Þeir báðu um að fá að ræða það við nemendur, einelti frá sjónarhorni gerenda sem hafa eftirsjá.

„Þeir hafa beðist afsökunar í dag og vildu bara koma og ræða þetta við krakkana. Maðurinn minn fékk það svar að það væri gott að vita af þessu en þau þyrftu ekki á þessu að halda. Þeir sendu nokkra tölvupósta en gáfust svo bara á endanum upp. Maður er bara gáttaður.“

Sigrún segir að það sem dóttir sín hafi þurft að heyra sé ógeðslegt.

„Hún var að segja mér margt fleira í gær og nú veit ég ennþá meira um þetta. Maður hefur verið alveg ónýtur yfir þessu í mörg ár. Mér hefur í mörg ár langað að flytja héðan með hana, en ekki getað það því maðurinn minn er með fyrirtæki hér og að reyna að láta það blómstra. Þetta er ótrúlega erfið staða því mér langar ótrúlega mikið að fara, og henni líka.“

Er bara brotin

Stúlkunni hefur meðal annars verið strítt fyrir að vera með ADHD. Sigrún segir að dóttir sín hafi sagt við sig að sér líði eins og draug í skólanum.

„Hún er með ADHD og er spræk og vill vera með, samt ekkert nema góðmennskan. Það eru læti í henni stundum en hún hefur fengið að heyra að hún sé barnaleg, skrítin og heilalaus.“

Sigrún segir að vanlíðan dóttur hennar hafi einungis versnað en henni gangi samt alltaf vel í námi. „Fyrir nokkrum mánuðum byrjaði hún að fikta með áfengi og að veipa. Hún er núna í banni frá heimavistinni sinni fyrir það en var ekki rekin úr skólanum því hún stendur sig svo vel. Hún var svo reið við sjálfa sig og finnst hún alltaf vera að klúðra í lífinu. Maður sér það samt bara hvernig hún fer neðar og neðar.“

Nú er hún komin í Laugaskóla og er á fyrsta ári í framhaldsskóla en upplifir það ennþá í skólanum að hún sé bara alveg ein. „Hún er núna mikið til baka því hún er svo hrædd um að fá höfnunina, hrædd um að þetta gerist aftur. Hún er bara brotin. Þegar mamma og fleiri úr fjölskyldunni höfðu hringt og kastað á hana kveðju eftir að hún kom af sjúkrahúsinu sagði hún: Ég veit þá allavega að fjölskyldan mín hatar mig ekki.““

Sigrún lýsir því fyrir mér að dóttir sín óttist ekki að deyja. „Ég hef ekki farið í vinnu alla vikuna. Ég bara treysti mér ekki til þess. Sérstaklega eftir þessi skilaboð í gær um að hún væri bara athyglissjúk. Ég er bara búin að vera andvaka af því að maður veit aldrei, ég veit aldrei hverju hún tekur upp á.“

Ótrúlega falleg framkoma viðbragðsaðila

Það var Sigrún sem kom að dóttur sinni eftir að hún hafði tekið töflurnar.

„Hún sagði mér hvað hún hafði gert og bara skældi. Það var ótrúlega magnað hvað allt gerðist svo hratt eftir það. Það var hringt strax og það kom teymi, tveir sjúkraflutningamenn, tveir lögreglumenn og læknir.“

Sigrún er ótrúlega þakklát fyrir skjót viðbrögð og hvernig haldið var vel utan um dóttur þeirra strax frá fyrstu mínútu.

„Þeir sátu allir og mynduðu bara hring utan um hana og spjölluðu við hana og ræddu hvað hún hafði gert og af hverju. Hún þurfti að drekka kol. Það var svo ótrúlega fallegt hvernig þeir töluðu við hana og stöppuðu í hana stálinu. Þeir ræddu líka við mig og það var strax byrjað á þessu á meðan hún var að drekka kolið, það var ótrúlega magnað.“

Stúlkan var svo flutt á sjúkrahús þar sem þau gistu í eina nótt. Því miður endaði eineltið ekki, það hélt áfram eftir að heim var komið. Sigrún er svekkt að dóttir hennar fái ekki tækifæri til að blómstra og fái þess í stað endalausar hafnanir.

„Hún kemur svo heim um kvöld eftir eina nótt á sjúkrahúsinu. Svo kom ein stelpa hérna til hennar að faðma hana og fara með hana í göngutúr, hún hefur líka átt erfitt. Hinum megin við götuna var þá öskrað: „Af hverju gastu ekki bara drepist?“ og hún kom þá heim öskrandi af hverju þetta hafi ekki tekist.“

Sigrún segir erfitt að upplifa að stúlkan hennar sé leið að hafa ekki náð að drepa sig.

„Þá fékk ég nóg, þá skrifaði ég pistilinn. Ég sagði við Almar, nú þegi ég ekki lengur.“

Skrifaði eitt sinn sjálfsvígsbréf 

Hún segir að dóttir sín hafi áður íhugað sjálfsvíg vegna eineltisins.„Hún hefur einu sinni áður ætlað að gera þetta. Skrifaði okkur bréf og lögreglan fann hana uppi í fjalli hérna heima og talaði lengi við hana, hún vildi ekki lifa lengur.“

Þegar stúlkan var í grunnskóla tilkynntu Sigrún og Almar einelti gegn henni til skólans en fengu þau svör að hún væri bara sjálf að koma sér í þetta.

„Það er eitthvað eineltisteymi í skólanum, og niðurstaða af þeirra fundi var sú að dóttir okkar, allir voru sammála um að hún væri að koma sér í þetta sjálf. Hún var ekki með ofbeldi, þó að hún kannski svaraði fyrir sig.“

Í kjölfarið ákváðu foreldrarnir að láta hana skipta um skóla.

„Þar fékk hún að heyra, það er allt ónýtt fyrst þú ert komin. Hún var að reyna að vera góð og vildi bara fá að vera með.“ Nú er hún byrjuð í framhaldsskóla og fjölskyldan er orðin langþreytt og vill bara að dóttir hennar fái frið á Húsavík þegar hún kemur heim.



Mikilvægt að foreldrar ræði við börnin sín

„Það er enginn bekkjarfélagi hennar búinn að hafa samband eða biðjast afsökunar, enginn. Það er bara þögn. Kennarar mega ekki tjá sig um þetta en einn kennari sendi henni þó einkaskilaboð og sagðist vona að hún færi að fá frið fyrir þessu einelti. Það er því miður bara ekki þannig, hún er bara ekki samþykkt í þetta samfélag af krökkum og unglingum.“

Hún vonar ennþá að gerendurnir stígi fram og biðji dóttur hennar afsökunar. 

„Ef bekkurinn hennar myndi bara koma til hennar og taka utan um hana, en nei, það kemur enginn. Það er alltaf bara hunsun.“

Sigrún segir að það sé gríðarlega mikilvægt að taka á þessu samfélagsmeini og að foreldrar ræði við börnin sín um alvarleika og afleiðingar eineltis.

„Þau eru að upplifa allskonar, þau fá að heyra: „Oj ekki koma við mig.“ Þetta hefur verið í gangi síðan ég var ung. Takið utan um börnin ykkar og ræðið við þau. Þetta er svo skelfilegt, hún fær bara ekki séns.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×