Innlent

Bílstjóri vörubílsins kastaðist út um glugga farþegamegin

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Vísir/Eyþór
Bílstjóri vörubíls með tengivagn kastaðist út um glugga farþegamegin á bifreiðinni þegar hann missti stjórn á henni á Hellisheiði um hádegisbilið í gær. Vörubíllinn hafnaði á vegriði og þveraði þjóðveginn um Hveradali og tók nokkurn tíma að ná honum burt.

Lögreglan á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að ökumaðurinn hafi ekki verið talinn í lífshættu þegar hlúð var að honum á vettvangi. Hann var þó talsvert slasaður og fluttur á sjúkrahús en lögreglan hafði ekki upplýsingar um líðan hans í dag.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sagði í samtali við Vísi í gær að vörubílnum hefði verið ekið á vesturleið þegar ökumaður hans missti stjórn á honum ofan við Skíðaskálabrekkuna svokölluðu.

Veginum var lokað fyrir umferð á meðan starfsmenn Brunavarna Árnessýslu losuðu hann úr vegriðinu en vegurinn var opnaður á nýjan leik á fjórða tímanum í gær.

Mynd sem Brunavarnir Árnessýslu birtu frá vettvangi slyssins í gær.Brunavarnir Árnessýslu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×