Innlent

Aukning í fíkniefnabrotum, mansali og vændi

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Skipulagðri glæpastarfsemi hefur vaxið fiskur um hrygg hér á landi undanfarin misseri. Lögregluyfirvöld greina mikla aukningu fíkniefnabrota, mansals og vændis. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir lögregluna skorta fjármagn til að takast á við vandann.

Ríkislögreglustjóri leggur ár hvert mat á umfang skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi, en í úttekt fyrir árið sem nú er að líða kemur fram að áhættustig vegna slíkra mála sé hátt. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra segir að fyrst og fremst sé um að ræða innlenda brotamenn, en svokölluðum farandglæpahópum hafi einnig vaxið ásmegin. Þá sé einnig að færast í aukana að lögleg fyrirtæki að nafninu til séu notuð til að skýla brotastarfsemi, en í byggingargeiranum hafi t.a.m. verið sviknar út hundruð milljóna króna úr skattkerfinu með því að gefa út falsaða reikninga. Enn fremur sé vændi og mansal að færast í aukana og meira sjáist af umfangsmiklum skipulögðum glæpasamtökum í kringum þá starfsemi. Þannig sé t.a.m. farið að bera talsvert á vélhjólagengjum á ný.

Ásgeir segir málið alvarlegt, enda hafi lögreglan ekki burði til að uppræta alla slíka starfsemi að eigin frumkvæði. Auka þurfi fjárframlög til löggæslu umtalsvert ef ekki eigi illa að fara.



Rætt var við Ásgeir Karlsson í kvöldfréttum Stöðvar 2, en viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×