Innlent

Var boðin lægri mánaðargreiðsla á leiguíbúð í skiptum fyrir kynlíf

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Íslenskri konu var boðin lægri mánaðargreiðsla á leiguíbúð í skiptum fyrir kynlíf. Málinu hefur verið vísað til lögreglu.

Harpa Lind Pálmarsdóttir skildi fyrir fimm mánuðum síðan og fór þá að leita sér að leiguíbúð. Hún fann loks íbúð og hitti leigusalann sem bauð henni samning upp á 180.000 á mánuði.

Ítarlega var rætt við Hörpu Lind og fjallað um mál hennar í DV í dag.

„Hann var svona að teygja lopann og segir síðan ég komst ekki alveg að því á sunnudaginn en ég er vanur að kaupa mér þjónustu kvenna, sko blíðu kvenna, getur það komið til með að koma upp í leigu,“ segir Harpa.

Þegar Harpa neitaði sagði maðurinn að leigan væri þá 180.000 krónur og bætti við að hún hafði væntanlega ekki efni á því. Maðurinn var skýr í sínu máli og vildi lækka leiguna gegn kynlífi.

Harpa býr í litlu herbergi hjá vinafólki í Hafnarfirði og segir erfitt að komast inn á leigumarkaðinn þar sem leigan er of há.

„Ég bý í þessu herbergi og ef eitthvað er þá hefur það kennt mér að sýna nægjusemi og að vera þakklát með það sem ég hef en ég er 38 ára gömul og á ekki að vera í þessari stöðu,“ segir Harpa Lind.

Harpa ætlar ekki ein að skoða íbúðir í framtíðinni og vonar að engin kona sé í það bágri stöðu að hún íhugi slík tilboð.

„Það eru konur með börnin sín að lenda á götunni, það vill enginn vera með börnin sín á götunni. Sumir eru orðnir svo örvæntingafullir eða eru ekki á réttum stað í lífinu og koma sér í þetta og hvað svo?“ spyr Harpa.

Hún segir sín fyrstu viðbrögð við beiðninni hafa verið að hlæja en síðan áttaði hún sig á alvöru málsins og tilkynnti lögreglu.

„Við munum eftir örfáum tilvikum á undanförnum árum, þar sem sambærileg brot hafa borið á góma og við hvetjum fólk til þess að tilkynna til lögreglu ef um ótvíræð brot er að ræða,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×