Innlent

Par hreiðraði um sig á herbergi á gistiheimili í óleyfi

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Lögreglan handtók tvo grunaða um akstur undir áhrifum.
Lögreglan handtók tvo grunaða um akstur undir áhrifum. Vísir/Eyþór
Tilkynnt var um húsbrot á gistiheimili í miðborginni laust upp úr tvö í dag en höfðu karl og kona hreiðrað um sig í einu herbergjanna án þess að bóka eða greiða fyrir það. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Karlinn og konan voru bæði handtekin en að sögn lögreglu voru þau í annarlegu ástandi vegna neyslu fíkniefna. Fíkniefni fundust í fórum konunnar en parið var vistað í fangaklefa í kjölfar handtökunnar.  

Tveir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í dag grunaðir um ölvunarakstur. Annar þeirra var handtekinn í kjölfar umferðaróhapps og afstungu í Borgartúni á tólfta tímanum í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vaknaði grunur um að ökumaður bifreiðarinnar væri undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Tveir aðrir karlmenn voru í bifreiðinni og á meðan sá sem tilkynnti atvikið til lögreglu ræddi við ökumanninn þá settist annar farþeginn undir stýri á bifreiðinni og flúði af vettvangi ásamt hinum farþega bifreiðarinnar. Ökumaðurinn hljóp þá af vettvangi.

Sá sem hafði sest undir stýri og ekið af vettvangi auk hins farþegans, var vistaður í fangageymslu.

Laust fyrir hádegi var tilkynnt um búðarhnupl í Hafnarfirði og klukkan 12:23 var tilkynnt um útafakstur á Vesturlandsvegi við Lágafell en þar hafði bifreið verið ekið inn í hringtorg þegar einn hjólbarði bifreiðarinnar sprakk. Engan sakaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×