Fulltrúar Pírata og Vinstri grænna í nefndinni óskuðu eftir fundinum. Þau hafa einnig farið fram á það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái aðgang að öllum gögnum Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna lögbannsins. Í því samhengi er vísað á 51. Grein laga um þingsköp.
Úr lögum um þingsköp:
[[51. gr.]1) Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarinnar þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar.Þórólfur Halldórsson sýslumaður, Þuríður Árnadóttir sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs og staðgengill sýslumanns og Brynjar Kvaran sviðsstjóri fullnustusviðs eru fyrstu gestir fundarins. Þau hafa skýrt tekið fram að þau geti lítið tjáð sig beint um einstök mál. Þau segja þessu tiltekna máli hins vegar lokið hjá embætti sýslumanns.
„Þegar lögbannsbeiðni kemur til sýslumanns þá þarf yfirleitt að bregðast mjög skjótt við. Það skiptir ekki máli hvaða aðila er um að ræða eða hvaða aðstæður eru uppi í samfélaginu,“ segir Þuríður.
Mögulegt að fara fram á endurupptöku
Lögbann er í eðli sínu bráðabirgðaaðgerð, eins og kemur ítrekað fram í máli fulltrúa sýslumannsins. Lögbann gildir í eina viku og ef því er ekki skotið til dómstóla fellur það niður. Hins vegar geta báðir aðilar málsins farið fram á endurupptöku málsins. Ef dómstóll kemst að því að lögbann hafi ekki verið réttmætt, getur sá sem fer fram á lögbannið verið skaðabótaskyldur gagnvart gerðarþola.
„Það er ákvæði um endurupptöku. Aðilar málsins geta lagt inn beiðni að endurupptöku, gerðarbeiðandi og gerðarþoli. Það má rétt hnykkja á því líka að þessar gerðir eru gerðar, þetta er framkvæmd á ábyrgð gerðarbeiðanda. Það er sérstakur kafli um skaðabætur í lögunum vegna kyrrsetningar og lögbannsgerða,“ segir Brynjar Kvaran, sviðsstjóri fullnustusviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Í þeim kafla segir að falli lögbann niður vegna sýknu af þeirri kröfu sem gerðinni var ætlað að tryggja skal gerðarbeiðandi bæta þann miska og fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, sem talið er að gerðin hafi valdið.
Fulltrúar sýslumannsins hafa ítrekað bent á lögbundnar takmarkanir tjáningarfrelsis, svo sem þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna og starfsmanna fjármálafyrirtækja. Ef þær lagareglur standist ekki stjórnarskrá sé það dómstólanna að tkaa það til skoðunar og kveða upp úr um það.
„Hér er skýrt ákvæði um þagnarskyldu og það sé bannað að miðla upplýsingum á ákveðnum sviðum og ef að beiðnirnar snúa að því sem við fáum að þarna sé verið að brjóta lög og brjóta þá á réttindum einhverra þá er líklegt að lagt verði á lögbann gegn því,“ segir Brynjar.