Erlent

Erfðagalli fjarlægður úr fósturvísi í fyrsta sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Crispr-erfðatæknin var notuð til að leiðrétta gallað gen í sæði sem var dælt í heilbrigt egg. Myndin er úr safni.
Crispr-erfðatæknin var notuð til að leiðrétta gallað gen í sæði sem var dælt í heilbrigt egg. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Vísindamenn hafa í fyrsta skipti fjarlægt gallað erfðaefni úr fósturvísi. Efðaefnið var talið valda ættgengum og banvænum hjartasjúkdómi. Aðgerðin vekur vonir um að hægt verði að koma í veg fyrir arfgenga sjúkdóma af ýmsu tagi í framtíðinni.

Breska ríkisútvarpið BBC segir frá tilrauninni sem hópur bandarískra og suður-kóreskra vísindamanna gerðu á fósturvísum sem báru gallað gen í erfðaefni.

Hjartagalli þessi er sagður hrjá einn af hverjum fimm hundruð jarðarbúum og getur hann leitt til skyndilegs hjartastopps. Eitt gen veldur gallanum en þeir sem bera það eiga helmingslíkur á að færa börnunum sínum hann í arf.

Virkaði í tæplega þremur af hverjum fjórum tilfellum

Vísindamennirnir notuðu svonefnda Crispr-erfðabreytingartækni til þess að leiðrétta gallann eftir að sæði manns með genið hættulega hafði verið sprautað í heilbrigð egg. Aðferðin virkaði í 72% fósturvísanna.

BBC segir að aðrir vísindamenn hafi reynt að komast fyrir erfðagalla af þessu tagi áður. Kínverskur hópur notaði Crispr-tæknina árið 2015 til að reyna að leiðrétta galla sem olli blóðsjúkdómi.

Þeir gátu hins vegar ekki leiðrétt gallann í hverri frumu og því varð útkoman blanda af heilbrigðum og gölluðum frumum.

Uppfært 2.7.2017 Í fréttinni var upphaflega ranglega sagt að gallinn hafi verið fjarlægður úr fóstrum. Það hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

Vísindamenn öðlast nýja sýn á sjúkdóma með CRISPR

Þó svo að stutt sé síðan CRISPR-erfðatæknin leit dagsins ljós er hún núna í notkun í tilraunastofum vítt og breitt um heiminn. Tæknin boðar byltingu á skilningi okkar á erfðum og erfðabreytingum og möguleikar hennar eru nær óþrjótandi. Hvergi mun hún þó hafa jafn mikil áhrif og í læknisvísindum.

CRISPR og framtíð erfðavísindanna: „Við berum öll ábyrgð“

Sérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og nefndarmaður í Vísindasiðanefnd segir ekki nóg að stóla á siðferði vísindamanna þegar notkun hinnar byltingarkenndu CRISPR-erfðabreytingatækni er annars vegar. Tæknin feli sér í miklu víðtækari áhrif en fólk geri sér grein fyrir.

Gullöld á næsta leiti

Árið 2016 var glæsilegt í vísindasögunni og gullöld erfðavísinda á næsta leiti. Á árinu fæddist til að mynda drengur sem á þrjá foreldra. Hvað skyldi árið 2017 bera í skauti sér?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×