Innlent

Sannfærð um að byrgin voru til að geyma fisk

Kristján Már Unnarsson skrifar
Byrgin dularfullu á utanverðu Snæfellsnesi voru ekki írsk bænahús heldur fiskbyrgi tengd verstöðvum fyrri alda, segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og hafnar því að þau séu keltneskur arfur. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Það eru skiptar skoðanir um það hvort byrgin við Gufuskála og Dritvík hafi verið reist til að geyma fisk eða séu leifar írskra bænahúsa og þar með keltnesk að uppruna, eins og Snæfellingurinn Sæmundur Kristjánsson heldur fram. 

Ragnheiður Traustadóttir segir slík byrgi einnig finnast á Reykjanesi, eins og á Selatöngum, Stafnesi, í Grindavík og við Ísólfsskála. Þar séu þau öll tengd verstöðvum. 

„Þannig að ég er eiginlega sannfærð um að þetta séu fiskibyrgi. Og ef við myndum rannsaka þau, og skoða kannski gólfskán eða slíkt, þá myndum við hugsanlega komast að því enn betur hvort það hafi ekki örugglega verið geymdur fiskur þarna og þurrkaður.“ 

Byrgin eru borghlaðin. Um 150 slík eru við Gufuskála og um 60 við Dritvík.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Ragnheiður segir byrgin á Reykjanesi sambærileg þeim á Snæfellsnesi, sem hún hafi einnig skoðað, og kveðst nokkuð sannfærð um að þau tengist fiskverkun og sjómennsku. 

Sæmundur Kristjánsson telur að hafi þetta verið fiskbyrgi hlytu menn að hafa lagt að þeim greiðfæra stíga til að bera í þau þungar byrðar af fiski. Ragnheiður segir menn vel geta hafa flutt fisk í þau þótt ekki sjáist vegir að þeim. 

Þá þurfi ekki að vera óeðlilegt að byrgjanna sé ekki getið í jarða- og hlunnindaskrám, þær séu frá átjándu öld en verstöðvarnar mun eldri. Heimildir frá þeim tíma séu mjög rýrar, sem bendi til að þessar minjar geti verið mun eldri en skrárnar. 

Gerð mannvirkjanna og staðsetningu telur hún styðja hlutverk þeirra. Í hrauninu blási vel í gegnum þau og refurinn komist ekki í þau. 

„Þetta tel ég að hafi verið bara nokkuð góð byrgi fyrir fisk.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.