Innlent

Telur stjórnmálamenn þurfa að gera meira og tala minna

Kristinn Ingi Jónsson og Sæunn Gísladóttir skrifa
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
„Það eru alltaf vonbrigði þegar tölurnar eru lágar alveg eins og það er jafn gaman þegar þær eru háar. Þetta sveiflast mikið hjá okkur,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, um niðurstöður nýrrar könnunar MMR, en samkvæmt henni mælist Björt framtíð með 2,4 prósenta fylgi.

„Það eina sem stjórnmálamenn geta gert að mínu mati er að tala minna og gera meira. Það er mitt mottó, það er bara þannig að það er ekki það sem maður segir heldur það sem maður gerir sem að mínu mati skilgreinir hvort stjórnmálamenn séu góðir í sínu starfi. Björt framtíð mun að loknu þessu kjörtímabili leggja verk sín í dóm kjósenda,“ segir Björt.

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar.Mynd/Aðsend
Hvorki Viðreisn né Björt framtíð næðu manni inn á þing ef marka má niðurstöður könnunarinnar sem gerð var dagana 18. til 21. júlí. Fylgi Viðreisnar mældist þá 4,7 prósent. Báðir flokkarnir hafa tapað fylgi frá síðustu könnun í júní. Þrátt fyrir dalandi fylgi flokkanna stóð stuðningur fólks við ríkisstjórnina í stað á milli mánaða, en 34,1 prósent aðspurðra sagðist styðja ríkisstjórnina. 

„Við erum rétt að byrja. Það er stutt liðið á kjörtímabilið og við eigum enn þá eftir að sýna okkur og sanna,“ segir Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar. „Það eru mörg brýn verkefni fram undan sem við munum leggja alla okkar krafta í að takast á við og leysa vel og ég hef fulla trú á því að við eigum eftir að fá fjölda tækifæra til að sanna okkur á komandi mánuðum og næstu árum,“ segir Jóna.

„Athygli vakti að Flokkur fólksins bætti hlutfallslega mest við sig á milli kannana, eða rúmum þremur prósentustigum. Flokkurinn fengi 6,1 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú og næði því inn á þing. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.Vísir/Anton Brink
Inga Sæland, formaður flokksins, segist hins vegar ekki vera farin að máta sig við þingmannsstólinn. Næsta verkefni sé sveitarstjórnarkosningar á næsta ári, en Inga hyggst bjóða sig fram í oddvitasæti í höfuðborginni.

„Ég er orðlaus. Það er allt þess virði að halda áfram að berjast,“ segir Inga um niðurstöður könnunarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins. Fylgi flokksins var 29,3 prósent í júlí. Nokkuð dró úr fylgi Vinstri grænna, sem mælist nú 20,4 prósent. Fylgi Pírata stóð í stað í 13,3 prósentum. Samfylkingin bætti hins vegar við sig fylgi og fór úr 9,1 prósenti í 10,6 prósent.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.