Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Breiðablik - FH 1-2 | Mikilvægur FH-sigur í Kópavogi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Flóki Finnbogason var frábær í kvöld.
Kristján Flóki Finnbogason var frábær í kvöld. vísir/ernir
FH vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í Pepsi-deildinni í kvöld. Kristján Flóki Finnbogason skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri og Íslandsmeistararnir eru farnir að nálgast toppliðin.

FH byrjaði mun betur og hefði vel getað verið með góða forystu í hálfleik ef ekki hefði verið fyrir góðan leik Gunnleifs Gunnleifssonar í marki Breiðabliks.

Kristján Flóki fann reyndar leiðina framhjá honum þegar hann skoraði með góðu skallamarki á 14.mínútu en annars varði Gunnleifur það sem á markið kom.

Blikar mættu síðan ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og Gísli Eyjólfsson skoraði frábært mark á 63.mínútu með góðu skoti fyrir utan teig.

En staðan var ekki lengi 1-1 því Kristján Flóki skoraði sitt annað mark með fínum skalla á fjærstönginni eftir sendingu frá Steven Lennon.

Blikar reyndu hvað þeir gátu til að jafna og Höskuldur Gunnlaugsson fékk besta færið undir lokin en Gunnar Nielsen var vel á verði í markinu. FH hefði sömuleiðis getað bætt við en tókst ekki.

Lokatölur 2-1 FH í vil sem lyftir sér þar með upp í 3.sæti deilarinnar og getur hirt toppsætið af Val um stundarsakir með sigri á Víkingi frá Ólafsvík á föstudaginn.

Af hverju vann FH?

Þeir voru sterkara liðið í kvöld og hefðu átt að fara langt með að klára leikinn í fyrri hálfleik. Þeir fengu þar nokkur góð færi en hinn síungi Gunnleifur Gunnleifsson kom í veg fyrir að forysta FH var aðeins 1-0 í leikhléi.

Það sem FH-ingar höfðu einnig framyfir Blika í dag var að þeir eru með sjóðandi heitan Kristján Flóka Finnbogason í sínu liði en hann var frábær í kvöld. Framherjar Breiðabliks nýttu ekki sín færi og má þar sérstaklega nefna tvö færi sem þeir fengu eftir að FH komst í 2-1.

Heilt yfir er sigur FH fyllilega sanngjarn og fögnuður þeirra í leikslok segir okkur allt um hversu mikilvægur sigurinn var í þeirra augum.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá FH var Kristján Flóki frábær og skoraði mörkin tvö sem færðu FH sigurinn. Hann var síógnandi og hann og Steven Lennon mynda framherjapar sem enginn vill mæta. Þórarinn Ingi Valdimarsson var sömuleiðis afar öflugur hjá FH og þá átti Kassim Doumbia góðan leik í vörninni.

Gunnar Nielsen varði sömuleiðis vel þegar á þurfti að halda og sérstaklega undir lokin þegar hann varði frábærlega úr dauðafæri.

Hjá Blikum var Gunnleifur Gunnleifsson bestur en hann varði oft á tíðum mjög vel. Gísli Eyjólfsson átti lipra takta og skoraði stórglæsilegt mark.

Hvað gekk illa?

Milos þjálfari Breiðabliks talaði um það eftir leik að einstaklingsmistök hefðu gert þeim lífið leitt. Það er því spurning hvort einbeiting leikmanna Breiðabliks sé eitthvað sem þjálfarar liðsins þurfa að skoða betur.

Oft á tíðum var sóknarleikur Breiðabliks máttlaus en þeir sköpuðu sér reyndar ágæt færi undir lokin. Heilt yfir vantaði þó einhvern neista í Blikaliðið og hápressa þeirra í upphafi var ekki að ganga upp.

Hvað gerist næst?

FH-ingar taka á móti Ólsurum á föstudaginn og geta með sigri tyllt sér í toppsætið um stundarsakir. Það hlýtur að kitla leikmenn FH að sjá efsta sætið í seilingarfjarlægð þó svo að Heimir Guðjónsson þjálfari hafi lítið viljað ræða það í leikslok í kvöld.

Blikar halda til Vestmannaeyja á sunnudag í algjörum lykilleik tveggja liða í neðri hluta deildarinnar. Tap þar setur Breiðablik í ansi erfiða stöðu og Milos þarf að undirbúa sína menn vel gegn Eyjaliði sem mætir til leiks með sjálfstraustið í botni eftir góðan bikarsigur um helgina.

Einkunnir:

Breiðablik (4-2-3-1): Gunnleifur Gunnleifsson 7 – Ernir Bjarnason 3 (57 Aron Bjarnason 4), Michee Efete 4, Damir Muminovic 5, Davíð Kristján Ólafsson 5 – Andri Rafn Yeoman 5, Arnór Ari Atlason 5 (70 Oliver Sigurjónsson 6) – Martin Lund Pedersen 5, Gísli Eyjólfsson 7, Höskuldur Gunnlaugsson 5 – Hrvoje Tokic 4

FH (4-4-2): Gunnar Nielsen 7 – Bergsveinn Ólafsson 6, Pétur Viðarsson 6, Kassim Doumbia 7, Böðvar Böðvarsson 6 – Þórarinn Ingi Valdimarsson 7, Emil Pálsson 6, Davíð Þór Viðarsson 6, Halldór Orri Björnsson 5 (65 Atli Guðnason 5) – Kristján Flóki Finnbogason 8 *(maður leiksins), Steven Lennon 7

Heimir: Erum í eltingarleik
Heimir og félagar á bekknum í kvöldvísir/ernir
Heimir Guðjónsson þjálfari FH fagnaði vel í leikslok eftir mikilvægan sigur á Breiðablik í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Þetta var mikilvægur sigur, við erum náttúrulega í eltingarleik og hvert stig skiptir máli. Það var flott að koma hérna og vinna gríðarlega sterkt Breiðabliks lið sem spilaði að mínu mati vel í þessum leik. Sterkt að koma á þennan völl og taka þrjú stig,“ sagði Heimir í samtali við Vísi strax eftir leik á Kópavogsvelli í kvöld.

FH komst yfir í fyrri hálfleik og hefði vel getað skorað fleiri mörk en Gunnleifur Gunnleifsson kom í veg fyrir það með góðri markvörslu.

„Mér fannst við mjög öflugir fyrsta hálftímann og fengum góð færi til að koma inn fleiri mörkum. Það náðist ekki og 1-0 er alltaf erfið forysta því það þarf ekki mikið að gerast. Við komum ekki nógu sterkir út í seinni hálfleik, féllum alltof langt til baka og miðjan var komin inn í vörnina.“

„Gísli (Eyjólfsson) er frábær skotmaður og hann fékk tækifæri á góðu skoti sem hann kláraði vel. En við sýndum karakter að svara og koma til baka,“ bætti Heimir við en annað mark FH kom aðeins fjórum mínútum eftir að Blikar höfðu jafnað.

FH spilar næst á föstudaginn og getur með sigri í þeim leik tekið toppsætið um stundarsakir þar sem aðrir leikir í umferðinni fara fram á sunnudag og mánudag.

„Það er bara næsti leikur gegn Víkingi Ólafsvík. Þeir eru með flott lið og Ejub hefur gert frábæra hluti. Það verður bara erfiður leikur, við fögnum í kvöld og byrjum svo að einbeita okkur að þeim leik á morgun,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH að lokum.

Milos: Þú gleymir ekki stærsta manninum inni í teig, er það?
Milos Milojevic er þjálfari Breiðabliksvísir/ernir
Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks var vitaskuld ósáttur eftir tapið gegn FH í kvöld en Fimleikafélagið vann sanngjarnan 2-1 sigur á Kópavogsvelli.

„Það má segja það. Í mínum augum voru þeir betra liðið í dag og þeir fara verðskuldað héðan af þessum velli með þrjú stig og það er auðvitað sárt fyrir okkur. Ég get ekki sagt annað og á móti FH þá getur þú ekki leyft þér stór einstaklingsmistök sem við gerðum tvisvar,“ sagði Milos og á þar við mistök þegar Kristján Flóki Finnbogason skoraði mörkin tvö.

„Kristján Flóki er mjög góður leikmaður og þú getur ekki látið hann fá gefins skallafæri. Við vorum heppnir að hann skoraði ekki úr þriðja færinu sem hann fékk. Það er áhyggjuefni ef menn missa einbeitingu í svona leik. Við erum ekki nógu þroskaðir til að spila gegn svona andstæðingi.“

Michee Efete gerði sig sekan um slæm mistök í seinna marki FH þegar hann lét Steven Lennon fara illa með sig úti á kanti áður en Skotinn knái fann Kristján Flóka í teignum.

„Við gerum líka mistök í fyrra markinu. Þú gleymir ekki stærsta manninum inni í teig, er það? Sérstaklega ekki ef það er búið að benda á það. Það þýðir ekkert að hengja haus eða taka hausinn af einhverjum. Þetta er brekka sem við erum í og við erum að setja okkur í ansi slæma stöðu.“

„Ég man ekki hvenær við unnum síðast á heimavelli og það er sárt. Engu að síður finnst mér gæði í leiknum hjá báðum liðum, það var spilaður góður fótbolti og það var verst að fá ekkert stig. Fyrir leik hefði ég ekki verið sáttur með stig en hvernig þetta þróaðist þá hefði ég þegið stigið.“

Blikar eru nú með 11 stig í 8.sæti deildarinnar og hafa leikið leik meira en liðin fyrir neðan þá. Þeir þurfa því nauðsynlega á stigum að halda ætli þeir ekki að enda í fallbaráttu í sumar.

„Ég er sammála því. Maður horfur á töfluna og er ekki ánægður með hana. En á meðan spilamennskan er góð þá förum við ekkert á taugum. Það sem er áhyggjuefni er að við fáum tvö góð færi og tvær góðar stöður eftir að þeir skora og við þurfum að afgreiða þau færi. Við fáum svo auðveld mörk á okkur þannig að þetta er smá brekka,“ sagði Milos Milojevic þjálfari Blika að lokum.

Kristján Flóki: Sennilega okkar besti leikur
Kristján Flóki og félagar hans fagna hér öðru marka hans í kvöld.vísir/ernir
Kristján Flóki Finnbogason skoraði bæði mörk FH og var maður leiksins þegar Hafnfirðingar lögðu Breiðablik í Kópavoginum í kvöld.

„Ég er alltaf sáttur með þrjú stig og alltaf gaman að skora. Það er rosalega sterkt að skora strax þegar þeir jafna og geta byggt ofan á það,“ en Kristján Flóki skoraði seinna mark sitt aðeins fjórum mínútum eftir að Gísli Eyjólfsson jafnaði fyrir Blika.

FH hefur ekki náð sömu hæðum í spilamennsku sína á þessu tímabili eins og undanfarin ár. Leikurinn í kvöld var hins vegar afar góður af þeirra hálfu og haldi þeir áfram á þessari braut mega hin liðin í efri hlutanum fara að vara sig.

„Frábær leikur í dag og sennilega okkar besti leikur með stjörnuleiknum. Við erum á siglingu núna og ég er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ bætti Kristján Flóki við en hann er nú kominn með sjö mörk í Pepsi-deildinni.

Kristján Flóki minntist á stuðninginn í stúkunni í kvöld en hún var góð og heyrðist sérstaklega vel í stuðningsmannasveit FH í stúkunni.

„Það er alltaf hægt að treysta Mafíunni, þeir eru frábærir og alltaf gaman að heyra í þeim,“ sagði tveggja marka maðurinn Kristján Flóki Finnbogason að lokum.

Damir: Þetta er mjög sárt
Úr leiknum í kvöld.vísir/ernir
Damir Muminovic varnarmaður Breiðabliks var vægast sagt svekktur eftir tapið gegn FH í kvöld.

„Mér fannst spilamennskan góð í seinni hálfleik, miklu betri en í þeim fyrri. Ég veit ekki hvort við vorum hræddir við þá eða hvað í þeim fyrri,“ sagði Damir við Vísi eftir leik.

Blikar gerðu slæm mistök í báðum mörkum FH og Milos þjálfari talaði um skort á einbeitingu og einstaklingsmistök í báðum mörkum FH.

„Ég bara skil þetta ekki, þetta er búið að vera svona í allt sumar. Þetta snýst um að vera einbeittur allan tímann sem við erum ekki. Við þurfum bara að laga það.“

Staðan í hálfleik var 1-0 FH í vil en miðað við færin sem þeir fengu hefði forysta þeirra getað verið stærri í hálfleik.

„Ef og hefði. Ég veit bara ekki hvað ég á að segja, þetta er mjög sárt.“

Oliver Sigurjónsson kom inn á í dag og lék þar með með Breiðablik í fyrsta sinn í langan tíma. Damir sagði gott að fá hann inn á nýjan leik.

„Það er frábært, Oliver er góður leikmaður og við eigum Ella (Elfar Freyr Helgason) inni líka. Ég held að Michee (Efete) sé að fara núna eftir þennan leik. En þetta eru tveir næstum nýir leikmenn að koma inn. Við Elfar náum mjög vel saman og vonandi náum við sama árangri og í fyrra og árið þar áður,“ sagði Damir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira