Erlent

17 ára hælisleitandi í lífshættu eftir hatursglæp

Anton Egilsson skrifar
Árásin átti sér stað í Croydon hverfinu í suðaustur London.
Árásin átti sér stað í Croydon hverfinu í suðaustur London. Vísir/AFP
Sautján ára hælisleitandi barðist fyrir lífi sínu eftir að hópur manna gekk í skrokk á honum í London í gær. Telur lögregla að um hatursglæp hafi verið að ræða.

Að sögn Guardian var drengurinn staddur ásamt tveimur vinum sínum á strætóstoppistöð í Croydon hverfinu í suðaustur London þegar átta ungir menn nálguðust hann og gáfu sig á tal við hann.

Spurðu þeir drenginn hvaðan hann kæmi og þegar hann tjáði þeim að hann væri hælisleitandi létu þeir höggin dynja á honum og skildu hann svo eftir í blóði sínu. Voru afleiðingar árásarinnar svo slæmar að drengurinn var um tíma talinn í lífshættu.

Breska rannsóknarlögreglan Scotland Yard segir að drengurinn hafi hlotið alvarlega höfuðáverka af völdum árásarinnar og var ástand hans talið tvísýnt um tíma. Er ástand hans nú talið alvarlegt en stöðugt. Vinir hans tveir sluppu báðir með minniháttar meiðsl.

Lögregla hefur enn ekki haft hendur í hári árásarmannanna en hún leitar nú eftir sjónarvottum að árásinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.