Innlent

Ók eins og „brjálæðingur“ um götur Akureyrar

Gissur Sigurðsson skrifar
Lögreglan á Akureyri handtók manninn.
Lögreglan á Akureyri handtók manninn. Vísir/Pjetur
Lögreglunni á Akureyri bárust tilkynningar undir morgun um mann, sem æki á ofsahraða vítt og breitt um bæinn á mótorhjóli.

Lögreglan fór að leita hans en þegar hún sá aksturslagið á honum var ekki tekin áhætta á að reyna að aka í veg fyrir hann eða elta hann vegna hættu á að hann færi sjálfum sér eða örðum að voða, og hvarf hann út í náttmyrkrið.

Lögreglumaður, sem fréttastofan ræddi við, sagði að hann hafi ekið „eins og brjálæðingur,“ auk þess sem hálka var hér og þar á götum bæjarins þegar þetta gerðist. Brátt vöknuðu grunsemdir um hver hann væri og var hann handtekinn í morgun þegar hann var á leið í vinnu.

Hann er nú í vörslu lögreglu og verður yfirheyrður í dag, en lögregla er meðal annars að afla sér efnis úr eftirlitsmyndavélum til að greina nánar athæfi mannsins. Ekki liggur enn fyrir hvort hann var undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×