Innlent

Vilja opna umræðuna um píkuna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir og Inga Björk Bjarnadóttir.
Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir og Inga Björk Bjarnadóttir. vísir/stefán
Þær Inga Björk Bjarnadóttir og Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir frumsýna á Loft Hostel í kvöld myndband sem þær gera undir merkjum Völvunnar, verkefnis sem byrjaði fyrir um ári síðan en fór almennilega af stað í desember síðastliðnum. Með verkefninu vilja þær stöllur opna umræðuna um píkuna en nafnið Völvan er dregið af enska orðinu „vulva“ sem þýða má sem ytri kynfæri kvenna. En hvað er Völvan og hvað felst í verkefninu?

„Þetta er stór spurning og við erum kannski ekki með neitt sérstaklega skýra hugmynd um hvað við erum að fara að gera. Við viljum líka ekki að þetta kom bara frá okkur heldur viljum við að þetta komi frá öllum. Þess vegna erum við að fá rosalega ólíkt fólk til að tala við okkur en grundvallaratriðið er píkan,“ segir Ingigerður en blaðamaður settist niður með henni og Ingu Björk í vikunni til að ræða verkefnið.

„Já, við viljum opna umræðuna um píkuna,“ segir Inga Björk.

Þær eru með Facebook-síðu sem er aðalvettvangur verkefnisins nú þar sem stefnan er að birta myndbönd mánaðarlega og verður fyrsta myndbandið birt í kvöld eins og áður segir.

Lógó Völvunnar er hannað af Stefaníu Stefánsdóttur.Mynd/Stefanía Stefánsdóttir/Facebook-síða Völvunnar
„Það má varla segja orðið píka“

„Í myndböndunum er ólíkt fólk að ræða píkuna og segja frá sinni sýn. Einstaklingar sem fæddust með píku, einstaklingar sem eru í kynleiðréttingarferli, einstaklingar sem eru með píku sem upplifa sig ekki sem konu, fólk af erlendum uppruna, fólk með fatlanir, strákar, stelpur, trans, af öllum kynhneigðum og fólk á öllum aldri,“ segir Inga Björk en yngstu viðmælendurnir fyrir fyrsta myndbandið eru 14 ára og þeir elstu yfir áttrætt.

„Við upplifum það að það megi eiginlega ekki tala um píkur, það má varla segja orðið píka, og Völvan er svona tilraun til þess að normalísera píkuna. Hún er annað hvort dálítið heilög eða kynferðisleg,“ segir Inga Björk og tekur dæmi um blæðingar og hversu mikið tabú þær eru enn.

„Við fundum það þegar við vorum að tala við viðmælendur okkar að þeir gerðu allir ráð fyrir því að eitthvað hefði breyst varðandi viðhorfið til blæðinga annars vegar og kynfræðslu hins vegar en það var alveg sama hvenær viðmælendur okkar voru fæddir, þeir voru allir með svipaða sögu. Það liggur við að það eina sem hafi breyst séu dömubindin,“ segir Ingigerður.

Þarf að leggja meiri áherslu á fjölbreytileika kynfæra

„Yngstu viðmælendurnir okkar voru svo alveg sammála um það að kynfræðsla væri ekki nógu góð heldur er bara eins og það sé verið að kenna líffræði kvenna,“ segir Inga Björk og Ingigerður grípur boltann á lofti og segist í raun sjálf sjá um kynfræðslu fyrir litlu systur sína sem er 14 ára því ekki sé nóg kennt í skólanum. Þar sé til mynda lítið sem ekkert talað um hinar ýmsu kynhneigðir, eins og pankynhneigð, og svo intersex fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni.

„Það er ekkert talað um kynlíf nema eitthvað rosalega gagnkynhneigt, að setja typpi inn í píku. Það er í fyrsta lagi bara hræðilegt fyrir fólk sem er ekki gagnkynhneigt að hlusta á þessa fræðslu en svo er það líka slæmt fyrir píkurnar af því að fæstar píkur fá leggangafullnægingu en það er ekkert talað um snípinn,“ segir Ingigerður og bætir við að fjölbreytileiki kynfæra sé ekki sýndur í kynfræðslu.

 

„Krökkum eru bara sýndar anatómískar myndir af píkunni þar sem leggöngin eru aðalmálið en ekki snípurinn. Það er heldur ekki gott að það sé þessi mikla áhersla á að kynfæri séu bara einhverjir tveir flokkar, typpi og píkur. Það er bara skaðlegt því að typpi eru svo fjölbreytt og píkur eru líka svo fjölbreyttar. Svo eru kynfæri sem falla í hvorugan flokkinn og þetta er ekki gagnlegt fyrir neinn heldur býr bara til einhvern samanburð.“

Hugmyndin að Völvunni kviknaði þegar Ingigerður skrifaði stúdentsritgerð frá Kvennaskólanum í fyrra þar sem hún skoðaði sjálfsfróun kvenna sem hefur lengi verið feimnismál. Hún segir að það eigi rætur að rekja til kynjakerfisins þar sem við séum bara með þessi tvö kyn og þeim sé stillt upp sem andstæðum.

„Píkan er vald“ stendur á mótmælaskilti þessarar konu sem mótmælti við Trump-turninn á dögunum.vísir/getty
Upplifun fólks lík þrátt fyrir ólíkan reynsluheim

„Það er oft þannig að það sem er í lagi fyrir annað kynið er ekki í lagi fyrir hitt kynið. Varðandi sjálfsfróunina þá birtist það víða. Fyrir einhverjum áratugum, einni tveimur öldum þá var litið á sjálfsfróun kvenna og kynlöngun þeirra sem geðsjúkdóm og konur voru læknaðar með því að snípir voru brenndir. Ég held að ég sé að fara með rétt að fyrsta læknisfræðilega hlutverk röntgengeisla var að brenna snípi,“ segir Ingigerður og bendir á að enn í dag tíðkist umskurður kvenna víða um heim þrátt fyrir að vera talinn mannréttindabrot.

„Við á Vesturlöndum fordæmum umskurð kvenna í öðrum heimshlutum en á sama tíma erum við samt að framkvæma skapabarmaaðgerðir sem að stundum eiga rétt á sér þar sem þetta er lýti en yfirleitt eru þetta fegrunaraðgerðir sem eiga sér stað af því að við sem samfélag erum ekki að tækla málefni píkunnar nógu vel. Við erum ekki að sýna hversu ólíkar þær eru og það væri örugglega ekki verið að fara í svona aðgerðir ef ekki væri fyrir þessa einu tegund af píku sem við þekkjum til dæmis úr klámmyndum.“

Inga Björk segir að það hafi verið skemmtilegt hversu svör viðmælenda þeirra voru lík en þær Ingigerður töluðu við í kringum fimmtíu manns fyrir fyrstu myndböndin sem koma munu út á næstu mánuðum.

„Upplifun fólks var mjög lík þrátt fyrir ólíkan reynsluheim og þessi skömm í kringum píkuna er mjög gegnumgangandi. Til dæmis finnst mér ótrúlega sorglegt að þetta með að skammast sín fyrir að vera á blæðingum hafi einhvern veginn ekkert breyst.“

Í desember 2015 gaf heimspekineminn Stefanía Pálsdóttir Háskóla Íslands málverk af píku. Hér færir hún rektori skólans, Jóni Atla Benediktssyni, verkið.vísir/gva
„Ástandið er verra en ég hélt“

En er píkan og málefni píkunnar meira feimnismál en þær bjuggust við?

„Mér fannst ég komast að því í þessu ferli að ástandið er verra en ég hélt,“ svarar Inga Björk og nefnir sérstaklega fullnægingar kvenna.

„Eins og ein kom með góðan punkt í viðtalinu og það er að það er svona viðbótarörvun að vera að örva snípinn til dæmis með kynlífsleikfangi, eins og fullnæging kvenna sé bara alltaf eitthvað aukaatriði í kynlífi. Normið af kynlífi er typpi inn í leggöng og svo er hitt bara viðbót eins og snípurinn geti ekki verið aðalmálið fyrir konu,“ segir Inga Björk og bætir við að hún, 24 ára gömul kona, hafi frekar nýlega lært það að fæstar konur fá leggangafullnægingu.

„Maður hélt bara að maður eitthvað klikkaður. Ég held að það sé ótrúlega mikið af einstaklingum með píku sem halda það á meðan þeir einstaklingar sem fá leggangafullnægingu eru í raun í minnihluta.“

Frá kvennafrídeginum 2010.vísir/stefán
Líka þáttur í að sporna við kynbundnu ofbeldi

Hverju vonast þær til að Völvan komi til leiðar?

„Að kynlíf verði ánægjulegt fyrir alla og að við kynnumst píkunni og getum farið að tala um hana,“ segir Ingigerður.

„Að stelpur geti byrjað á blæðingum án þess að panikka. Ég held líka að þegar við förum að tala meira um píkuna og lærum um hana, skiljum hana og berum virðingu fyrir henni sem líffæri þá verður þetta líka þáttur í því að sporna við kynbundnu ofbeldi. Stór hluti af kynbundnu ofbeldi er að fara yfir mörk annarra og virða ekki líkama annars fólks. Þess vegna erum við líka mikið að tala um fyrsta skiptið, samþykki og hvernig kynlíf er ánægjulegt fyrir báða aðila. Þannig að fyrir mér snýst þetta mjög mikið um kynbundið ofbeldi og að tala opinskátt um píkuna,“ segir Inga Björk.

Aðspurðar um framhald verkefnisins segjast þær stefna á að gefa út eitt myndband í mánuði. Það velti  hins vegar á fjármagni og leita þær nú að styrktaraðilum en þær fengu styrk frá Reykjavíkurborg á sínum tíma til að byrja á verkefninu. Þá ætla þær að fara í framleiðslu á píkuvarningi og munu píkusokkar vera til sölu á Loft Hostel í kvöld.



Uppfært:
Fréttin hefur verið uppfærð og orðalagi breytt varðandi intersex fólk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×