Innlent

Tugir eftirskjálfta á Hengilssvæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á þessari mynd af vef Veðurstofunnar sjást eftirskjálftarnir merktir með rauðu en skjálftinn sem var 3,8 að stærð er merktur með stjörnu.
Á þessari mynd af vef Veðurstofunnar sjást eftirskjálftarnir merktir með rauðu en skjálftinn sem var 3,8 að stærð er merktur með stjörnu.
Tugir eftirskjálftar hafa orðið í Grafningnum í dag í kjölfar jarðskjálfta að stærð 3,8 sem varð þar rétt fyrir klukkan tólf í dag, en eftirskjálftarnir eru allir mun minni. Upptök stóra skjálftans voru rétt sunnan við Þingvallavatn, eða við Hróðmundartind sem er gömul megineldstöð og löngu kulnuð.

Gunnar P. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir að það séu alltaf viðvarandi litlir skjálftar á Hengilssvæðinu en hann nefnir sérstaklega árin 1994 til 1998 þegar mjög mikil skjálftavirkni var á svæðinu.

„Það var mjög mikil virkni þarna á árunum ´94 til ´98. Þá voru stöðugar hrinur á Hengilssvæðinu og margir skjálftar um fjórir að stærð og yfir. Það var eiginlega þarna á öllu svæðinu og norðan við Ingólfsfjall en svo endaði þetta með skjálfta í byrjun júní 1998 sem var upp á 5,5 og öðrum í nóvember sama ár. Það var því mikil skjálftahrina á þessu svæði og undir lokin skjálftar yfir 5,“ segir Gunnar.

Aðspurður hvort eitthvað óvenjulegt sé í gangi á svæðinu núna segir Gunnar svo ekki vera þó auðvitað sé alltaf ómögulegt að spá fyrir um hvað gerist. Frá 1998 hafi af og til orðið skjálftar á svæðinu um og yfir þrír að stærð.

„Það verða náttúrulega viðvarandi eftirskjálftar en við reiknum ekki með einhverju framhaldi þó að það sé auðvitað aldrei hægt að útiloka það,“ segir Gunnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.