Innlent

Flugeldur endaði í svefnherbergi: „Guði sé lof að ég lá ekki í rúminu“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tjónið vegna flugeldsins er töluvert
Tjónið vegna flugeldsins er töluvert Vísir/Skjáskot
Ásta Erla Jónsdóttir segir að betur hafi farið en á horfðist þegar flugeldur skaust inn um svefnherbergisgluggann á íbúð hennar fyrr í dag með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í rúmi hennar. Ásta telur að flugeldinum hafi verið kastað inn í íbúðina og segist vilja vekja athygli á alvarleika málsins.

„Við erum mjög skelkuð hérna. Það varð bara eldur, þetta var hræðilegt. Guði sé lof að ég lá ekki í rúminu því þetta hefði farið í andlitið á mér. Hann sprakk á koddanum sem varð alelda,“ segir Ásta í samtali við Vísi.

Ásta Erla auglýsti eftir vitnum af atburðinum í hverfishóp Langholtshverfis á Facebook. Hún segist hafa hringt í neyðarlínuna og að slökkvilið hafi komið á vettvang ásamt lögreglu, sem tók af þeim skýrslu.

„Kærastinn minn hljóp út og reyndi að sjá eitthvað, en við vitum ekki neitt,“ segir Ásta, sem segist ekki vilja trúa því að fullorðnu fólki detti slíkt í hug og grunar þess vegna að krakkar gætu verið að verki.

„Mig grunar að þetta sé hrekkur og að börnum finnist þetta fyndið.“

Ásta segir töluvert tjón vera eftir flugeldinn, sem skaust undir fataskáp í herberginu og að mikil reyklykt sé af eigum þeirra. 

„Það hefði getað orðið alvarlegt slys hérna. Það var mikill blossi og mikill hvellur. Vonandi er þetta einhverjum víti til varnaðar að gera ekki svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×