Erlent

Átján konur urðu fyrir kynferðisofbeldi á nýársfögnuði í Austurríki

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Innsbruck
Innsbruck Vísir/Getty
Lögregluyfirvöld í Austurríki rannsaka nú umfangsmikla kynferðislega áreitni sem átti sér stað á gamlárskvöld í borginni Innsbruck. Átján konur hafa leitað aðstoðar lögreglu vegna málsins.

Um 25 þúsund manns voru samankomin á aðaltorgi Innsbruck til að fagna komu nýja ársins þegar brotin áttu sér stað. Lögreglan telur að allt að tíu karlmenn hafi átt í hlut og er talið að þeir séu rétt undir tvítugu. AFP greinir frá

Ernst Kranebitter, yfirmaður í lögreglunni í Austurríki, sagði í samtali við AFP að lögreglan hefði aldrei séð neitt brot í líkingu við árásirnar á laugardag.

„Þeir dönsuðu í kringum brotaþolana og skyndilega gripu þeir í brjóst þeirra eða settu hendur sínar á milli fóta þeirra. Þar af leiðandi var erfiðara fyrir nærstadda að taka eftir því sem gekk á – þetta gerðist í miðjum hátíðarhöldum,“ sagði Kranebitter.

Árásinni svipar mjög til skipulagðrar árásar sem gerð var í Kölnarborg í Þýskalandi á áramótunum fyrir ári síðan þegar konur í tugatali voru rændar og áreittar af mönnum af arabískum og norður-afrískum uppruna. Í ljósi árásarinnar í Köln höfðu yfirvöld aukið öryggisgæslu við hátíðarhöld í Vín, höfuðborg Austurríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×