Innlent

Heimsóknum rannsóknarskipa fjölgar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Rannsóknarskipið Ramford Sterling er engin smásmíði.
Rannsóknarskipið Ramford Sterling er engin smásmíði. Mynd/TVG-Zimsen
Komum erlendra rannsóknarsóknarskipa hingað til lands hefur fjölgað mjög, að sögn Jóhanns Bogasonar, framkvæmdastjóra Gáru, dótturfélags TVG-Zimsen. Fyrirtækið þjónustar skipin á meðan á dvöl þeirra hér við land stendur.

„Undanfarin ár hafa verið að koma í kringum 30 til 40 rannsóknarskip á ári en þau eru talsvert fleiri nú í ár, eða nálægt sextíu. Í sumar hafa jafnvel verið fimm til sex rannsóknarskip í höfn í Reykjavík á sama tíma, sem er óvenjulega mikið," segir Jóhann.

Jóhann segir skipin koma hingað í margvíslegum tilgangi, en þar spili aukinn áhugi á norðurslóðum stórt hlutverk. Meðal annars séu sum við dýptarmælingar, geri kannanir á eiginleika sjávar, rannsaki landgrunnið og geri bergmálsmælingar á hafsbotninum. Önnur séu einungis á ferð um íslenska hafsvæðið og hafi viðkomu hér á landi til að sækja sér vistir og ýmsa þjónustu.

Meðal erlendra rannsóknarskipa sem komið hafa til Íslands í ár eru sögð skipin Neil Armstrong, Ramford Sterling og olíurannsóknarskipið Ocean Victory. Öll erlend rannsóknarskip sem stundi rannsóknir innan íslenskrar efnahagslögsögu þurfi heimild íslenskra stjórnvalda.

Auk þjónustu við rannsóknarskip sinnir Gára og TVG-Zimsen þjónustu við erlend skemmtiferðaskip. „Það er óhætt að segja að það sé búið að vera mjög annasamt hjá okkur í sumar og við höfum þurft að sinna metfjölda skipa. En þetta hefst allt með góðum starfsmönnum og skipulagningu,“ segir Jóhann.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×