Innlent

Bil milli orlofs og leikskóla enn óbrúað

Sæunn Gísladóttir og Sveinn Arnarsson skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður Velferðarnefndar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður Velferðarnefndar. Fréttablaðið/Ernir
Fjöldi barna fæddra árið 2015 sem komin eru með leikskólapláss er mjög mismunandi í níu af tíu stærstu sveitarfélögum landsins. Í Fjarðabyggð er hæsta hlutfall barna á leikskóla, eða 96 prósent. Lægsta hlutfallið er hins vegar í Mosfellsbæ og á Akranesi þar sem engin börn fædd árið 2015 eru komin á leikskóla.

Munur á kostnaði foreldra vegna vistunar á leikskóla eða hjá dagforeldri nemur allt að 27 þúsund krónum á mánuði hjá þeim sveitarfélögum sem gáfu upplýsingar um það, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er munurinn allt að 50 þúsund krónur í Reykjavík. Formaður Velferðarnefndar segir núverandi ríkisstjórn ekki virðast hafa stefnu í að brúa bilið milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla. Mikilvægt sé að lengja fæðingarorlofið og taka börn fyrr inn á leikskóla.

Ef höfuðborgarsvæðið er einungis skoðað má sjá að hæsta hlutfall barna fæddra í fyrra á leikskólum er í Kópavogi, eða 42 prósent, fast á hæla Kópavogs kemur Garðabær með 39 prósent barna á leikskóla. Í Reykjavík eru einungis átján börn fædd árið 2015 á leikskólum, eða 1,2 prósent barna fæddra árið 2015.

Kostnaður foreldra við átta tíma vistun á leikskóla í sveitarfélögunum níu nemur frá 25.280 til 37.570 króna og er mestur í Garðabæ en minnstur í Reykjavík. Kostnaður foreldra við átta tíma vistun hjá dagforeldri er á bilinu 34.805 til 60 þúsund krónur í þeim sveitarfélögunum þar sem fengust svör. Athygli vekur að í sumum sveitarfélögum hefur sveitarfélagið enga yfirsýn yfir kostnað foreldra hjá dagforeldrum. Gjaldskrá dagforeldra er frjáls en sveitarfélagið niðurgreiðir kostnað við hvert barn um vissa krónutölu, óháð því hvað dagforeldrið rukkar foreldra um.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að sumir foreldrar í höfuðborginni greiði allt að 80 þúsund krónur til dagforeldris. Samanborið við 25.280 krónur á leikskóla nemur munurinn um 55 þúsund krónum.

Að sögn upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar verða 142 börn í viðbót tekin inn þegar leikskólar opna á ný eftir sumarleyfi. Þá verða þau samtals 160, sem eru þó einungis 10,5 prósent barna. Einnig verða 65 börn fædd árið 2015 tekin inn í leikskóla Hafnarfjarðar á haustmánuðum, og öll börn sem fædd eru í janúar til ágúst 2015 verða tekin inn í leikskóla Garðabæjar þann 1. september. Í Mosfellsbæ og á Akranesi þar sem engin börn hafa verið tekin inn er stefnan sú að börn séu tekin inn í leikskóla frá tveggja ára aldri. Stefnt er að því að breyta innritunarreglum í Mosfellsbæ og vonast er til að hægt verði að taka á móti sextán til átján mánaða börnum á næsta ári.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir það samstarfsverkefni ríkisstjórnar og sveitarfélaga að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólainntöku. „Núverandi ríkisstjórn virðist ekki hafa stefnu í þessu því hún hefur stytt fæðingarorlofið og ekki treyst sér til að lengja það aftur þrátt fyrir bætta stöðu ríkissjóðs. Ríkið þarf að lengja fæðingarorlofið og sveitarfélögin þurfa að taka börnin fyrr inn. Þá kemur spurningin hvort við viljum hafa tólf mánaða fæðingarorlof eða átján mánaða fæðingarorlof.“

Sigríður Ingibjörg óttast áhrif núverandi stöðu á fæðingatíðni. „Fæðingatíðni hefur lækkað undanfarið, ekki síst vegna þess að það er orðið dýrara að eignast börn. Fæðingarorlofið hefur staðið í stað í þrjú ár. Það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að fólk vilji eignast börn og það sé öryggi fyrir fjölskyldur varðandi dagvistun fyrir minnstu börnin.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×