Innlent

Telja frumvarp fela í sér grundvallarbreytingu

Sveinn Arnarsson skrifar
Líklegt þykir að LÍN frumvarpið verði bitbein fylkinga á þingi.
Líklegt þykir að LÍN frumvarpið verði bitbein fylkinga á þingi. vísir/valli
Bandalag háskólamanna (BHM) gagnrýnir frumvarp til laga um námslán og námsstyrki sem liggur fyrir þinginu. Segir það grundvallarbreytingu á eðli námslánakerfisins ef hætt sé að tekjutengja endurgreiðslu lána.

BHM er samtök 28 stéttarfélaga háskólamenntaðra með um ellefu þúsund félagsmenn, jafnt hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum. „Við höfum áhyggjur af því að láglaunastéttir standi veikar að vígi en aðrir þegar kemur að endurgreiðslu námslána þar sem tekjutengingin er afnumin,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. „Við hvetjum til þess að það fari fram frekari umræða um málefnið svo tryggt sé að greiðslubyrði háskólamenntaðra einstaklinga verði áfram sanngjörn þegar kemur að námslánum.“

Frumvarp menntamálaráðherra var samþykkt í ríkisstjórn í lok maí. Þar kemur fram að námslánatími muni styttast og tekjutenging verði afnumin. Einnig muni endurgreiðsla lána hefjast fyrr og vextir á þeim munu hækka. Á móti muni mánaðarlegir styrkir til námsmanna upp á allt að 65 þúsund krónur á mánuði koma í vasa námsmanna að uppfylltum skilyrðum um að námsframvinda sé eðlileg.

Unnur Brá Konráðsdóttirvísir/vilhelm
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar þingsins, segist vonandi fá málið sem fyrst inn á borð nefndarinnar svo hægt sé að vinna það áfram. „Ég tel líklegt að ráðherra mæli fyrir frumvarpinu á fyrstu dögum þingsins svo það geti komið til þinglegrar meðferðar í nefndinni. Svo vonum við bara að það gangi vel að vinna það áfram,“ segir Unnur Brá.

Einnig er opnað fyrir það í frumvarpsdrögum að rekstur sjóðsins sé færður úr höndum hins opinbera og settur á markað. Sú hugmynd fellur í grýttan jarðveg innan BHM. „Það er okkar mat að það sé ekki lántakendum í hag að færa afgreiðslu námslána íslenskra stúdenta og færa hana í hendur einkafyrirtækja. Einnig er óljóst hvernig það mun spara ríkissjóði fjármagn þegar til lengri tíma er litið,“ segir Þórunn.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×