Innlent

Kona grunuð um íkveikju játaði að hafa kveikt í bók

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Konan er laus úr haldi eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi gæsluvarðshaldsúrskurð héraðsdóms.
Konan er laus úr haldi eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi gæsluvarðshaldsúrskurð héraðsdóms. Fréttablaðið/GVA
Konan sem grunuð er um íkveikju í húsi í Skólagerði í Kópavogi er laus úr haldi. Hæstiréttur felldi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að henni yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. ágúst. Konan játar að hafa kveikt í bók inn í íbúðinni.

Eldur kviknaði í íbúð á sunnudaginn síðastliðinn og voru þrjár konur handteknar vegna eldsins en þær voru allar í húsinu þegar eldurinn kom upp. Tvær þeirra voru látnar lausar að loknum yfirheyrslum.

Miklar skemmdir urðu á íbúðinni en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins. Liggur fyrir að eldur var kveiktur inn í íbúðinni. Í greinargerð lögreglu segir að sterkur grunur sé um að konan beri ábyrgð á þeim verknaði. Vitni í málinu beri að kærða hafi sagt að hún hafi kveikt í og þá hafi hún viðurkennt að hafa kveikt í.

Sjá einnig: Ítrekaðir brunar valda óhug íbúa í Skólagerði

Konan sem grunuð er um að hafa kveikt í íbúðinni býr þar ásamt manni sem ekki var viðstaddur þegar er eldurinn kom upp. Íbúðin er í eigu ömmu mannsins. Að sögn nágranna í götunni var fólk í húsinu þegar kviknaði í, bæði á hæðinni fyrir ofan og í næstu íbúð. Málið veki mikinn óhug enda hefði geta farið illa þó engin slys hafi orðið á fólki í þetta sinn.

Húsið sem um ræðir er parhús og tengt tveimur íbúðum. Í úrskurði héraðsdóms segir að með íkveikjunni hafi falist mikil hætta fyrir fjölda fólks og að konunni hafi mátt vera ljóst að brotið væri þess eðlis að það hefði í för með sér almannahættu, því hafi þótt brýna nauðsyn bera til þess að konunni yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. ágúst.

Hæstiréttur felldi þennan úrskurð úr gildi en í dómi Hæstaréttar segir að þrátt fyrir að háttsemi konunnar hafi falið í sér augljósa og mikla almannahættu þurfi þó meira að koma til þess að hægt sé að úrskurða hana í gæsluvarðhald. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að konan hafi áður gerst sek um sams konar háttsemi og að ekki sé sýnt fram á að nauðsyn beri til þess að úrskurða hana í gæsluvarðhald.


Tengdar fréttir

Kona í haldi vegna elds í Kópavogi

Þrjár íslenskar konur voru handteknar á sunnudagskvöld eftir að eldur kviknaði í einbýlishúsi í Skólagerði í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×