Enski boltinn

Lukaku vill spila í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lukaku fagnar marki gegn sínum gömlu félögum í Chelsea.
Lukaku fagnar marki gegn sínum gömlu félögum í Chelsea. vísir/getty
Belgíski framherjinn Romelu Lukaku vill spila í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Lukaku hefur leikið með Everton frá árinu 2013 og þótt honum hafi gengið flest í haginn á tímabilinu er gengi liðsins undir væntingum.

Lukaku er þriðji markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 18 mörk en hann hefur skorað 25 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

Everton er í 12. sæti úrvalsdeildarinnar með 38 stig og á ekki möguleika á að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili en þar vill Lukaku spila.

„Það er næsta skrefið á mínum ferli. Ég verð 23 ára í sumar og það væri gaman að spila í Meistaradeildinni frá og með næsta tímabili,“ sagði Lukaku í samtali við Sky Sports.

Faðir Lukakus tjáði sig nýlega um son sinn þar sem hann hvatti hann til að fara til annað hvort Bayern München eða Manchester United. Að sögn föðursins hafa Juventus, Atletico Madrid og Chelsea einnig áhuga á framherjanum öfluga.

„Þetta hans skoðun; hann er hrifinn af þessum liðum,“ sagði Lukaku aðspurður um ummæli föður síns.

„Ég er með umboðsmann sem sér um mín mál. Ég vil bara spila vel, hjálpa samherjum mínum að vinna leiki og skora mörk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×