Innlent

Íhuguðu að geyma kjarnorkuvopn á Íslandi í leyfisleysi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Keflavík árið 1955.
Frá Keflavík árið 1955. Mynd/National Archives
Á tímum kalda stríðsins íhuguðu yfirvöld Bandaríkjanna að koma kjarnorkuvopnum fyrir hér á landi, án þess að láta íslensk yfirvöld vita af því. Í skjölum frá árinu 1960 kemur fram að Tyler Thompson, sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, mótmælti öllum áformum um að koma kjarnorkuvopnum fyrir hér á landi. Hann sagði að ef Íslendingar kæmust að því gæti Ísland yfirgefið Atlantshafsbandalagið.

Farið er yfir umrædd skjöl á vef National Security Archive, en hingað til hafa skölin verið leynileg. Þar er tekið fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem vísbendingar hafi fundist um ætlanir sem þessar.

Sagnfræðingurinn Valur Ingimundarson hafi sýnt fram á að vopnageymsla sem byggð var í Keflavík á sjötta áratuginum hafi verið ætluð undir kjarnorkuvopn. Þá hefur sagnfræðingurinn William Arkin varpað ljósi á að forsetinn Richard Nixon hafi tilnefnt Íslands sem geymslustað fyrir kjarnorkuvopn ef til heimstyrjaldar kæmi.

National Security Archive segir ljóst að kjarnorkuvopn hafi aldrei verið geymd hér á landi. Hins vegar spurði Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, yfirvöld í Bandaríkjunum árið 1951 hvort að til stæði að koma upp kjarnorkuvopnum á Íslandi í trássi við varnarsamninginn sem undirritaður hafði verið það ár. Í svari Bandaríkjanna kom fram að svo væri ekki.

Árið 1999 var því haldið fram að kjarnorkuvopn hafi verið geymd hér frá árinu 1956 til 1959. Yfirvöld Bandaríkjanna hafa hins vegar neitað því að svo hafi verið. Á vef National Security Archive segir að rannsakendur hafi ruglað saman Íslandi og Iwo Jima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×