Innlent

Flateyri að finna á Mars

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins. Vísir/GVA
Gígur á yfirborði reikistjörnunnar Mars ber nú nafnið Flateyri. Nafngiftin var samþykkt af örnefnanefnd Alþjóðasambands stjörnufræðinga þann 12. september síðastliðinn en þá fengu tveir gígar á Mars nafn. Hinn var nefndur í höfuðið á norska smábænum Nybyen.

„Gígar á Mars sem eru minna en sextíu kílómetrar á breidd fá nafn eftir bæjum eða borgum á jörðinni þar sem íbúar eru færri en 100.000,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.

Ástæðan fyrir því að Flateyri er valin nú er líklega sú, að sá vísindamaður, sem réð nafninu, hafi nýlega verið á ferð um Ísland. „Fjölmargir geimvísindamenn koma hingað til lands, bæði í rannsóknarleiðangra og sem ferðamenn,“ segir Sævar. Hann bendir til dæmis á að á Títan, stærsta tungli Satúrnusar, sé að finna stöðuvatn sem heitir Mývatn. „Margir koma þangað til að skoða vatnið meðal annars til að kanna aðstæður hvort líf gæti mögulega kviknað.“

Í sólkerfinu er að finna tíu íslensk örnefni. Á Merkúríusi eru fjórir gígar sem heita eftir íslenskum listamönnum og á Mars eru fimm gígar með íslenska tengingu. Einn þeirra er nefndur eftir Leifi Eiríkssyni en hinir fjórir bera nöfn íslenskra bæja. Það eru bæirnir Vík, Reykholt og Grindavík.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×