Innlent

Ringulreið í komusalnum á sunnudag: „Erum að elta skottið á okkur með þessar stækkanir“

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni segir að starfsmenn hafi náð að koma tveimur af þremur færiböndum aftur í gang á fimm mínútum.
Guðni segir að starfsmenn hafi náð að koma tveimur af þremur færiböndum aftur í gang á fimm mínútum. Vísir/GVA
„Það er þannig að ef svona dettur niður í hálftíma, og nítján vélar lenda á vellinum á tveggja tíma tímabili, þá verður einhver seinkun og salurinn þétt setinn,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, aðspurður um það ástand sem skapaðist í komusal Keflavíkurflugvallar á sunnudagskvöld.

Miklar tafir urðu í komusal flugstöðvarinnar eftir að færibönd biluðu og skapaðist talsverð ringulreið vegna þessa.

Guðni segir að starfsmenn hafi náð að koma tveimur af þremur færiböndum aftur í gang á fimm mínútum. „Það þurfti hins vegar að kalla til viðgerðarmann vegna þriðja færibandsins. Hann kom á staðinn og var færibandið komið í lag á rétt rúmum hálftíma.“

Kvartað vegna skorts á upplýsingum

Guðni segir einhverja komufarþega hafa kvartað vegna skorts á upplýsingum vegna seinkunarinnar sem varð. Hann bendir á að flugþjónustuaðilar sjái um að setja töskurnar á bandið og eru með upplýsingaborðin í komusalnum. Isavia sjái hins vegar um að færiböndin virki sem skyldi.

„Þetta [bilun í kerfinu] hefur komið upp nokkrum sinnum í sumar, álíka oft og þetta hefur komið í fjölmiðla og við erum búin að fylgjast vel með þessu. Við fundum reglulega með fulltrúum flugfélaga og flugafgreiðsluaðila um hvað megi gera til að bæta þetta. Sú vinna hefur gengið vel en svo koma svona atvik upp, smá bakslag. Við munum nú fara yfir upplýsingamál með flugfélögum og flugafgreiðsluaðilum,“ segir Guðni.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.Mynd/Isavia
Um 3.500 farþegar

Guðni segir að nítján flugvélar hafi lent á tímabilinu milli klukkan 23 og eitt eftir miðnætti á sunnudagskvöldinu, þegar bilunin varð. „Ef við gerum ráð fyrir 180 manns í hverri vél þá voru þarna um 3.500 manns sem voru að koma á þessum tíma. Ef það verður töf þá þéttist salurinn mikið.“

Eltum skottið á okkur

Mest umferð á Keflavíkurflugvelli er að jafnaði á sunnudögum og má því segja að bilunin hafi komið upp á versta tíma. „Við sjáum að farþegum í júlí hefur fjölgað um 35 prósent, borið saman við sama mánuð í fyrra. Síðustu árin höfum við hins vegar verið að sjá sumaraukningu um 10 til 15 prósent og vetraraukningu 20 til 30 prósent.“

Hann segir að komusalurinn hafi nýverið verið stækkaður um tvö þúsund fermetra, eða um 30 prósent.

„Við erum að elta skottið á okkur með þessar stækkanir. Það er nýverið búið að taka í notkun stækkun og aukningu á afköstum kerfisins. Það er samt viðkvæmt ástand á því þannig að þegar kemur upp bilun þá hefur það mikil áhrif á þessum álagstímum.“


Tengdar fréttir

Flugferðamet slegið á Keflavíkurflugvelli í gær

Met var slegið á Keflavíkurflugvelli í gær þegar 188 flugferðir voru farnar um flugvöllinn en farþegarnir voru þrjátíu og tvö þúsund. Talið er að tæpar sjö milljónir farþega fari um völlin á árinu sem nærri þrefalt meira en þegar mest var fyrir hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×