Innlent

Salek-hópurinn fékk hlaðborð af hugmyndum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mynd/aðsend
Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, hefur skilað Salek-hópnum bráðabirgðaútgáfu af skýrslu um það hvernig bæta megi vinnubrögð við kjarasamningagerðina á Íslandi. Markmiðið er að tryggja sjálfbæra launaþróun á Íslandi, þannig að launahækkanir skili raunverulegri kaupmáttaraukningu en ekki bara hækkun nafnlauna.

„Að mati Holdens þarf launaþróunin að vera sjálfbær og samkeppnishæfni atvinnulífsins að ráða því hversu mikið svigrúm er til launahækkana,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari, sem leiðir starf Salek-hópsins.

Bryndís segir að tillögur Holdens séu nokkurs konar hlaðborð hugmynda um það hvernig megi bæta kjarasamningagerðina hér á landi. Íslendingar þurfi svo að finna það líkan sem henti Íslendingum best. „Hann byggir sínar hugmyndir á þeim líkönum sem eru við lýði í Noregi og horfir líka aðeins til Danmerkur og Svíþjóðar,“ segir Bryndís.

Norrænu módelin byggja á því að aðilar á vinnumarkaði hafa komið sér saman um það hverjir skuli semja fyrst (vera undanfari) og aðrir sem fylgja í kjölfarið skuldbindi sig til þess að fylgja því merki sem þar er gefið. Bryndís segir að í skýrslunni séu meðal annars reifaðar hugmyndir um undanfarasamninga. Á Norðurlöndunum sé það framleiðslugeirinn sem geri undanfarasamningana. Holden útskýrir í skýrslunni hvað góður undanfari þarf að hafa til að bera. „Á Íslandi er vandamálið að það er erfitt að finna einn augljósan undanfara því okkar útflutningsgreinar byggja á auðlindum og eru háðar sveiflum í auðlindinni,“ segir Bryndís. Valið á undanfara sé flókið en Holden bendi á nokkrar leiðir til að bregðast við því.

Þá bendi Holden á að það verði að vera til staðar trygging um að fordæminu sé fylgt annars staðar á vinnumarkaðnum þannig að þeir sem semji fyrstir endi ekki á að vera með minnstar launahækkanir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×