Innlent

Segir lækkun stýrivaxta of litla og koma of seint

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. vísir/vilhelm
Lækkun stýrivaxta var þingmönnum hugleikin undir dagskrárliðnum Störf þingsins í dag. Þingfundurinn var með styttra lagi en Störf þingsins voru eini dagskrárliður fundarins. Almenn ánægja virtist vera meðal þingmanna um ákvörðun peningastefnunefndar.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fagnaði því að peningastefnunefnd hefði „ákveðið að sjá ljósið“ en sagði lækkunina vera of litla og koma of seint. „ég vona auðvitað að þetta verði til þess að þetta sé einungis fyrsta skrefið af fleirum. því hvað sem öllu líður eru stýrivextir á íslandi enn of háir,“ sagði Þorsteinn meðal annars.

Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sagði mikilvægt að „fjármálastofnanir sem skila hagnaði og búa við gott bú leyfi hagnaði að renna til heimila landsins með lægra vaxtastigi eða færri og lægri þjónustugjöldum sem rukkað er um.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði ákvörðun peningastefnunefndar vera tíðindi dagsins. „Þegar ég segi tíðindi, virðulegi forseti, þá ásamt hagstæðum skilyrðum, stöðugleika, hefur peningastefnan verið aðhaldssöm og auðvitað er það mikilvægt til að varðveita stöðugleikann. Þessi ákvörðun felur jafnframt í sér vísbendingu um styrka efnahagsstjórn hæstv. ríkisstjórnar og ákvarðanir á þessu kjörtímabili sem gefa fyrirheit um að við getum enn frekar lækkað raunvexti,“ sagði Willum meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×