Innlent

Stjórnarandstaðan um vinnufrið á þingi: „Það varð kúvending þegar Sigmundur Davíð steig til hliðar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Það varð kúvending í þinginu þegar Sigmundur Davíð steig til hliðar. Við fundum öll fyrir því að það gjörbreytti vinnuandanum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og trúnaðinum sem var á milli manna,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs er hún var spurð að því hvort að breyting á störfum þingsins eftir brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra í vor.

Svandís var gestur Páls Magnússonar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun ásamt öðrum leiðtogum stjórnarandstöðunnar, þeim Birgittu Jónsdóttur Pírata, Óttari Proppé formanni Bjartrar framtíðar og Oddnýju Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar. Hlusta má á samræðurnar í spilaranum hér fyrir ofan.

Tóku þau öll undir orð Svandísar um að andrúmsloftið á þinginu hafi batnað eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra og hvarf af þingi í kjölfar þeirra uppljóstrana sem komu fram í Panama-skjölunum.

„Andrúmsloftið varð bara afslappaðra þegar að Sigurður Ingi tók við. Ég þekki hann ágætlega, hann er oddviti í mínu kjördæmi og það er gott að ræða við hann þó maður sé ekki sammála honum en það er þó samtal. Það er miklu betra í pólitík að fólk geti talað saman til að finna sáttaflöt,“ sagði Oddný.

Svandís bætti einnig við samstarfið á þinginu hafi mögulega gengið betur en ríkisstjórninni hafi látið sig þorað að dreyma um og mikilvæg málefni hafi verið kláruð í sátt og samlyndi.

„Ég tel að þetta hafi gengið mun hraðar en að meira segja ríkisstjórnin hafi látið sig dreyma um vegna þess að fólk var að vinna af heilindum. Við kláruðum ný útlendingalög, millidómstig, stór mál sem tengjast húsnæðismálum með þverpólítískri sátt án andstöðu. Það er algjörlega ný staða,“ sagði Svandís og kallaði eftir því að stjórnarandstaðan og stjórn settust niður til a ákveða hvaða mál væri hægt að ræða á haustþingi svo negla mætti niður kjördag fyrir komandi alþingiskosningar sem boðaðar hafa verið í haust.

Enginn þolinmæði lengur fyrir óheiðarlegum og hrokafullum stjórnmálum

Birgitta Jónsdóttir var spurð að því hvort að hér ríkti pólitísk þýða eftir brotthvarf Sigmundar Davíðs en setti hún þó nokkra fyrirvara það.

„Stundum upplifir maður í pólítik að oft er gott logn á undan miklum stormi þannig að ég tel að það geti brugðið til allskonar óveðra núna,“ sagði Birgitta sem tók þó undir orð Svandísar og Oddnýjar um að andrúmsloftið hefði batnað til muna eftir brotthvarf Sigmundar.

„Ég er alveg sammála að það hafi lagast mjög andrúmsloftið á þingi þegar hægt var að hefja samtalið og það er mjög gott,“ sagði Birgitta.

Óttar Proppé taldi að augljóst væri að þingheimur hafi áttað sig á því að engin þolinmæði væri lengur í þjóðfélaginu fyrir ákveðinn tegund af stjórnmálum.

„Það sem breytist í vor er að það er augljóst að það er enginn þolinmæði lengur fyrir óheiðarlegum, hrokafullum stjórnmálum þar sem verið er að troða ofan á stjórnarandstæðinga eða aðra. Um þetta voru allir mjög meðvitaðir í þinghúsinu. Það ýtti á það að við unnum betur saman en á sama tíma unnum við að málum sem við gátum unnið saman að.“

Sigmundur Davíð hefur boðað endurkomu sína í stjórnmálin og mun sitja á komandi þingi. Hann er formaður Framsóknarflokksins en fréttastofa hefur heimildir fyrir því að innan þingflokks Framsóknarflokksins hafi verið átök um það hvort Sigmundur Davíð eigi að leiða flokkinn í kosningunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×