Innlent

Launamunur vegna uppruna kannaður

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Áhyggjur eru af launamun, vinnuaðstöðu og fordómum gegn innflytjendum á vinnumarkaði.
Áhyggjur eru af launamun, vinnuaðstöðu og fordómum gegn innflytjendum á vinnumarkaði. Visir/Sigurjón Ólafsson
„Konur af erlendum uppruna eru í verstri stöðu á vinnumarkaði, við höfum áhyggjur af launamun, vinnuaðstöðu og fordómum gegn innflytjendum og viðkvæmum hópi flóttamanna og hælisleitenda,“ segir Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórn­arinnar í málefnum innflytjenda er greint frá áformum um launagreiningu á íslenskum vinnumarkaði þar sem kanna á hvort marktækur munur sé á launum sem ekki skýrist af öðru en uppruna.





Kristín Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða Krossins
Tiltekið er að Hagstofan, sem vinnur reglulega launagreiningar í samstarfi við aðila vinnumarkaðar, til dæmis greiningu á launamun kynjanna, eigi að framkvæma athugunina.

Rannsókn á launamun eftir uppruna er afar mikilvæg að sögn Kristínar.

„Við vitum þetta, það eru svo mörg dæmi um þetta, en verðum að fá tölfræðigögn í hendurnar til að vinna með. Þetta er ný breyta í íslensku samfélagi,“ segir hún.

Kristín segir mikilvægt að það sé samstaða um að uppræta mismunun gagnvart þessum hópi í íslensku samfélagi.

„Það er vanþekking og ótti ríkjandi gagnvart þessum hópi. Við verðum fyrst og fremst að koma í veg fyrir vinnuþrælahald en í ört vaxandi atvinnugrein á við ferðamannaiðnað hafa kraftar innflytjenda verið misnotaðir eins og dæmin sanna. Það verður að vera samstaða um það í samfélaginu að við gagnrýnum og upprætum mismunun gagnvart þessum hópi og misnotkun á aðstæðum hans,“ segir Kristín.

Hún bendir á að á vinnumarkaði séu gjörbreyttar aðstæður. Það hafi orðið bylting á síðustu árum og atvinnuframboð með mesta móti. Því þurfi að búa betur að innflytjendum því annars verði þeir undir.  

„Staðreyndin er sú að það eru miklir fordómar gagnvart innflytjendum á vinnumarkaði. Fordómar hefta atvinnumöguleika, framgang og möguleika fólks í starfi“, segir Kristín og bætir við að aðilar vinnumarkaðar þurfi að taka á sig tilskilda ábyrgð.

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×