Innlent

Landsvirkjun þrýsti á um breytingar á reglum

Snærós Sindradóttir skrifar
Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fóru á fund umhverfisráðherra þann 17. ágúst síðastliðinn og afhentu bréf þess efnis að Landsvirkjun gerði verulegar athugasemdir við starfsreglurnar.
Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fóru á fund umhverfisráðherra þann 17. ágúst síðastliðinn og afhentu bréf þess efnis að Landsvirkjun gerði verulegar athugasemdir við starfsreglurnar. Vísir/Vilhelm
Landsvirkjun fór fram á það við umhverfisráðuneytið að starfsreglum verkefnastjórnar rammaáætlunar yrði breytt. Samkvæmt drögum að nýjum reglum verður verkefnastjórnin að taka aftur til umræðu virkjunarkost sem áður hefur verið settur í vernd ef hann hefur tekið breytingum.

Taki breytingarnar gildi mætti leggja fram að nýju alla virkjanakosti sem áður hafa verið settir í verndarflokk lítillega breytta – til dæmis Norðlingaölduveitu.

Formaður Landverndar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sagði í grein í Fréttablaðinu í gær: „Verði drögin að veruleika hefur Landsvirkjun í raun mótað leikreglur verkefnisstjórnar í úrvinnslu mála sem varða beina fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins.“



Sigrún Magnúsdóttir umhverfis-og auðlindaráðherra
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra sagði í samtali við RÚV á sunnudag að það væri fráleitt að halda því fram að fyrirhugaðar breytingar væru gerðar fyrir Landsvirkjun. „Það var ekki síst út af fjölmörgum ábendingum, meðal annars frá Alþingi Íslendinga, sem að við hófum endurskoðun á starfsreglunum nú,“ sagði Sigrún. 

Samkvæmt svari umhverfisráðuneytisins til Landverndar vísaði Sigrún þar til funda atvinnuveganefndar Alþingis þann 24. september síðastliðinn. Fram kom í svarinu að bæði gestir fundarins og þingmenn hefðu gert athugasemdir við starfsreglurnar. Vert er að taka það fram að Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var gestur á fundinum.

„Þetta vekur allt saman grunsemdir um að það séu sterkir aðilar í orkugeiranum að þrýsta á ráðuneyti umhverfismála og náttúruverndar að breyta reglum í þágu nýtingar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og þingmaður VG.

Svandís Svavarsdóttir
Svandís hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til umhverfisráðherra, þar sem farið er fram á að öll gögn um feril málsins verði opinberuð og því svarað hvort athugað hafi verið hvort breytingin standist lög. 

„Það væri saga til næsta bæjar að nefnd sem starfar samkvæmt lögum sé sett í þá stöðu á miðju tímabili sinnar vinnu að breyta sínum starfsaðferðum efnislega í þágu einstaka sjónarmiða og markmiða,“ segir Svandís. „Þá erum við farin að hverfa frá því að vinnan sé fagleg og í samráði við lögin, enda hef ég efasemdir um að það standist lögin að breyta reglum efnislega á miðju tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×