Innlent

Annasöm nótt hjá lögreglu

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Vísir/Hari
Sex manns gistu í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Flest tilfellin tengdust ölvun eða fíkniefnaneyslu. Maður var þó handtekinn í Kópavogi grunaður um heimilisofbeldi og hótanir. Hann neitaði einnig að fara eftir fyrirmælum lögreglu. Annað svipað atvik átti sér svo stað í Hraunbæ um klukkan hálf þrjú í nótt. Sá aðili var í annarlegu ástandi.

Um miðnætti í gær var tilkynnt um umferðaróhapp við Bollagötu þar sem ökumaður bifhjóls hafði dottið. Sjúkrabifreið flutti viðkomandi á slysadeild en talið er að ökumaður hafi verið ölvaður við aksturinn. Hann var auk þess ekki með hjálm.

Í Kópavogi var haft afskipti af ökumanni  sem grunaður var um að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann er einnig grunaður um að hafa haft fíkniefni í vörslu sinni sem og ólöglegt vopn.

Ráðist var á 15 ára dreng í Langholtshverfinu um klukkan hálf tvö í nótt. Þrír menn réðust að honum og veittu nokkra áverka. Drengurinn fór í fylgd móður sinnar upp á Slysadeild en árásaraðilar eru enn ófundnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×