Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Mikil óánægja er meðal Framsóknarmanna í norðausturkjördæmi eftir að tillaga um að flýta flokksþingi flokksins var felld með naumum meirihluta í dag. Þingmaður flokksins segir niðurstöðuna vera vonbrigði og að það sé ótækt að ganga til kosninga án þess að boða til flokksþings.

Margir framsóknarmenn vilja halda flokksþing svo forysta flokksins geti endurnýjað umboð sitt. Við fjöllum nánar um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 og ræðum meðal annars við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins.

Í fréttatímanum, sem sendur verður út frá Egilsstöðum að þessu sinni, fjöllum við líka um endurskoðaða samgönguáætlun sem bíður afgreiðslu þingsins.

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs segir algjörlega óásættanlegt ef áætlunin fari ekki í gegn á þessu þingi en hún hefur verið ósamþykkt síðustu tvö misseri.

Við fjöllum að sjálfsögðu um menningarnótt í Reykjavík og ræðum í beinni útsendingu við reykvísk hjón sem hafa tíu ár í röð opnað heimili sitt fyrir gestum og gangandi á þessum degi. Þá fjöllum við um Reykjavíkurmaraþonið og ræðum við Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands sem hljóp hálfmaraþon í fjórtánda sinn en hann var aðeins tveimur mínútum frá sínum besta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×