Innlent

Braust inn í íbúð í Vestmannaeyjum og lagði til íbúa með klaufhamri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn er í mikilli fíkniefnaneyslu, svo mikilli að haft er eftir móður hans í upplýsingaskýrslu lögreglu í mars "að hún skilji hann ekki þegar hann talar vegna vímuástands, hann sé þvoglumæltur og í alvarlega annarlegu ástandi.“
Maðurinn er í mikilli fíkniefnaneyslu, svo mikilli að haft er eftir móður hans í upplýsingaskýrslu lögreglu í mars "að hún skilji hann ekki þegar hann talar vegna vímuástands, hann sé þvoglumæltur og í alvarlega annarlegu ástandi.“ Vísir/GVA
Karlmaður um tvítugt hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald af Héraðsdómi Suðurlands eftir að hafa ráðist að tveimur mönnum vopnaður hamri í Vestmannaeyjum. Brotaferill unga mannsins er afar langur sé tekið tillit til ungs aldurs hans. Hann mun vera á kafi í neyslu þar sem læknadóp er fyrirferðamikið.

Maðurinn braust ásamt þremur öðrum mönnum inn í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku. Skemmdir urðu ekki miklar en þó ein rúða brotin, öryggisgler sem skilur að afgreiðslu og íþróttasalinn. RÚV greindi fyrst frá.

Tveimur dögum síðar brutust þrír þeirra inn á nokkrum stöðum í Vestmannaeyjum og voru svo í íbúð í parhúsi á Heimaey. Þar fór ekki betur en svo að maðurinn greip til klaufhamars og lamdi félaga sinn. Í framhaldinu braust hann inn í næstu íbúð og réðst á ótengdan aðila.

Síbrotamaður þrátt fyrir ungan aldur

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum má telja mildi að báðir mennirnir sluppu með minniháttar meiðsli. Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna en hann þykir hættulegur samfélagi sínu.

Sami maður var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald í mars en þá hafði lögregla fjölda mála á hendur manninum til rannsóknar. Þeirra á meðal voru fimm líkamsárásir, ein í mars þar sem hann á að hafa stappað á höfði manns sem hann réðst á. Átti hann að mæta fyrir dóm nú á mánudaginn vegna þeirra mála en var ekki í ástandi til að svara fyrir sig.

Maðurinn er í mikilli fíkniefnaneyslu, svo mikilli að haft er eftir móður hans í upplýsingaskýrslu lögreglu í mars „að hún skilji hann ekki þegar hann talar vegna vímuástands, hann sé þvoglumæltur og í alvarlega annarlegu ástandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×