Enski boltinn

Hola í handleggnum eftir köngulóarbit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samsett mynd/Twitter/Getty
James Gray, 23 ára sóknarmaður hjá enska utandeildarliðinu Wrexham, var frá æfingum í mánuð eftir slæmt köngulóarbit en hann er nú nýbyrjaður að æfa á nýjan leik.

Gray var bitinn á hægri handlegg en velti því ekki frekar fyrir sér á sínum tíma. En eins og sést á meðfylgjandi mynd hafði bitið hrikalegar afleiðingar fyrir Gray sem þurfti að fara í aðgerð vegna þess.

Falska ekkjan [e. false widow spider] er eitraðasta könguló Bretlandseyja en Grey segir að í fyrstu hafi bitið virst algjörlega meinlaust.

„Ég pældi ekkert í þessu fyrr en nokkrum dögum síðar að ég fór til læknisins hjá félaginu,“ sagði Gray í viðtali við BBC.

„Þetta varð svo verra og verra og ég held að læknirinn hafði þá áttað sig á því að sýkingin var byrjuð að dreifa sér upp allan handlegginn. Þá gerðu menn sér grein fyrir alvarleika málsins og var ég sendur í flýti upp á spítala.“

„Þeir skáru sýkinguna í burtu og þess vegna var ég með holu í handleggnum,“ bætti Grey við sem komst sem betur fer heill frá öllu saman. En liðsfélagarnir gerðu auðvitað góðlátlegt grín að kappanum.

„Þeir hafa komið með nokkra brandara. Ég hef til dæmis verið kallaður köngulóarmaðurinn og fleira í þeim dúr.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×