Enski boltinn

Neil Lennon hættur hjá Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Lennon, fyrrum knattspyrnustjóri Bolton.
Neil Lennon, fyrrum knattspyrnustjóri Bolton. Vísir/Getty
Neil Lennon hefur stýrt sínum síðasta leik hjá enska b-deildarliðinu Bolton en félagið sendi frá sér fréttatilkynningu í hádeginu þar sem segir frá brotthvarfi knattspyrnustjórans.

Samkvæmt fréttatilkynningu Bolton er þetta sameiginleg ákvörðun Neil Lennon og stjórnar félagsins.

Það eru aðeins fimm dagar síðan að Sports Shield félagið tók yfir félagið en Dean Holdsworth, fyrrum leikmaður Bolton, leiðir félagið.

Jimmy Phillips, sem hefur stýrt unglingaliði félagsins, mun stýra liði Bolton á meðan leitað er að framtíðarstjóra.

Það hefur ekkert gengið hjá Bolton á þessu tímabili en liðið er í neðsta sæti deildarinnar nú ellefu stigum frá öruggu sæti.

Síðasti leikur liðsins undir stjórn Lennon var 2-1 tap á móti Preston North End á laugardaginn.

Neil Lennon fékk íslenska landsliðsmanninn Eið Smára Guðjohnsen til að koma aftur til Bolton á síðasta tímabili og skorað Eiður þá 6 mörk í 24 leikjum í öllum keppnum. Liðið endaði þá í 18. sæti.

Bolton hefur aðeins skorað 36 mörk í 37 leikjum í ensku b-deildinni á þessu tímabili og hefur ekki fagnað sigri í síðustu sjö leikjum eða síðan liðið vann Rotherham United 6. febrúar.

Sigurinn á Rotherham United er annar af tveimur sigurleikjum Bolton í þrettán deildarleikjum liðsins á árinu 2016.

Neil Lennon hafði stýrt Bolton frá því í október 2014. Hann var stjóri Celtic frá 2010 til 2014 og vann þá fjórar stóra titla með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×