Innlent

Ungt fólk á Íslandi kaupir sér hjólhýsi til að búa í allan ársins hring

Anton Egilsson skrifar
Það er ekki nýtilkomið vandamál að ungt fólk hafi átt í miklum erfiðleikum með að kaupa sína fyrstu íbúð. Húsnæðisverð er hátt og þá er lítið framboð af minni íbúðum en slíkar íbúðir sækir ungt fólk fremur í. Er það farið að færast enn meira í aukana að þessi hópur nýti sér þann kost að kaupa sér hjólhýsi eða stöðuhýsi til að búa í, jafnvel fólk með ung börn. Þetta kom fram í þættinum í Reykjavík síðdegis þar sem rætt var við Arnar Barðdal, framkvæmdastjóra Víkurverks.

„Við höfum aðeins fundið fyrir þessu. Þetta byrjaði síðasta sumar en þá byrjaði ungt fólk að koma til okkar og spyrja um þessa möguleika. Þá voru þau að leita sér að hjólhýsi til að búa í allan ársins hring,“ sagði Arnar.

Hann segir það jafnvel tíðkast að fólk með ung börn nýti sér þennan valkost.

„Ég man sérstaklega eftir ungum hjónum með lítið barn sem keyptu sér hjólhýsi í sumar og þau sögðust ætla að búa í því í tvö ár.“

Fólk sem hefur ekki efni á húsnæði

Ástæða þess að fólk kýs þennan valkost segir Arnar að sé fyrst og fremst sú að þau hafi hreinlega ekki efni á að kaupa sér húsnæði.

„Þetta er ungt fólk sem sér fyrir sér að það geti ekki keypt sér íbúð og er að leita leiða til að búa saman. Það ákveður þá að reyna þetta.“

Arnar segir þó að skortur sé á svæðum til að koma slíkum hjólhýsum á og að úr því verði að bæta.

„Það er það erfiðasta við þetta, það er ekki mikið af svæðum til þess. Við höfum nú aðeins farið fram á það við sveitarfélögin og erum að biðja þá um leysa það að koma með aðstöðu til að setja hjólhýsi eða stöðuhýsi á. Í rauninni alls staðar í Evrópu er þetta upp komið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×