Tíska og hönnun

Svala Björgvins fékk sér tvö ný tattú

Guðný Hrönn skrifar
Uglan hennar Svölu.
Uglan hennar Svölu.
Tónlistarkonan Svala Björgvinsdóttir er forfallin áhugakona um húðflúr og skartar nokkrum flúrum sjálf. Nýverið fékk hún sér tvö ný tattú á handleggina sem eru innblásin af kvikmyndinni Blade Runner, uglu og origami-einhyrning.

„Blade Runner er ein af mínum uppáhaldsbíómyndum. Hún hefur veitt mér innblástur í gegnum árin, í minni tónlist, fatahönnun og allri sköpun. Ég fékk mér ugluna sem var í myndinni en hún var eins konar eftirmynd af alvöru uglu. Í myndinni eru nefnilega flestöll dýr útdauð og uglan í Blade Runner er véldýr sem lítur nákvæmlega út eins og alvöru ugla. Svo fékk ég mér origami-einhyrninginn sem er mjög táknrænn í bíómyndinni.“

Origami-einhyrningurinn fékk samastað á upphandleggnum.
Ugluna fékk Svala sér á framhandlegginn en einhyrninginn fékk hún á innanverðan upphandlegg og er himinlifandi með útkomuna.

„Það var hann Haukur Færseth hjá Memoria Collective sem hannaði tattúin og flúraði þau bæði. Hann hefur gert þrjú flúr á mig en þetta er í annað sinn sem ég fer á Memoria Collective. Í minni fyrstu heimsókn þangað fékk ég mér rosalega fallegan örn í „traditional“-stíl á upphandlegg. Ég var svo svakalega ánægð með hann þannig að ég ákvað að leita aftur til Memoria Collective með þessi tvö nýju flúr.“

Svala segir andrúmsloftið á þeirri húðflúrstofu vera vinalegt og það skipti hana máli. „Svo eru þeir líka afar hæfileikaríkir listamenn og fagmannlegir. Ég mæli eindregið með þeim.“

Fyrsta tattúið sem Svala fékk sér á húðflúrstofunni Memoria Collective.

Ávanabindandi áhugamál

Svala kveðst vera rétt að byrja. „Já, ég á eftir að fá mér mun fleiri húðflúr. Ég er alls ekki hætt. Ég er með „full sleeve“-tattú á hægri handlegg sem nær frá öxl niður á úlnlið og það er japanskt verk eftir vinkonu mína, Sofiu. Svo er ég með „sugarskull“, dreka og rosalega stóran svartan pardus á mjóbakinu til viðbótar við þau flúr sem ég fékk á Memoria Collective. Þetta eru sjö tattú allt í allt en í „full sleeve“-tattúinu eru auðvitað mörg verk sem sameinast í eitt,“ útskýrir Svala sem segir húðflúr vera ávanabindandi.

„Þegar maður byrjar þá verður þetta svolítið ávanabindandi. Svo eru líka svo margir æðislega hæfileikaríkir húðflúrlistamenn sem mann langar að vinna með og fá listaverk eftir. Alveg óendanlega mikið af verkum sem mann langar í.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×