Innlent

Prófessor í hagfræði efast um að hátekjuskattur hafi stórkostleg efnahagsleg áhrif

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þórólfur Matthíasson segir reynsluna af hátekjusköttum misgóða, en efast jafnframt að um róttækar hækkanir sé að ræða.
Þórólfur Matthíasson segir reynsluna af hátekjusköttum misgóða, en efast jafnframt að um róttækar hækkanir sé að ræða.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segist efa að fyrirhugaðar skattahækkanir á hátekjuhópa muni hafa stórfelld efnahagsleg áhrif. Hann segir þó reynsluna af hátekjusköttum misgóða, en efast jafnframt að um róttækar hækkanir sé að ræða.

Í viðtali við Fréttablaðið í dag sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna að flokkurinn hafi talað fyrir hátekjuskattþrepi og miðað væri við eina og hálfa miljón í mánaðarlaun. Hún segir jafnframt að flokkurinn sé opinn fyrir því að mörkin geti legið ofar.

Þórólfur segist ekki gera ráð fyrir að hækkanir á þann hóp muni hafa stórkostlegar efnahagslegar afleiðingar.

„Nú er ég ekki með það alveg á tæru hvað ein og hálf milljón eða um átján milljónir á ári slær marga. Ég hygg nú að það sé ekkert ofboðslega stór hópur sem myndi borga það. Þannig að ef að menn miða mörkin einhvers staðar við eina og hálfa til tvær milljónir þá held ég að það hafi ekki stórkostleg efnahagsleg áhrif. Það getur náttúrulega haft þau áhrif að einhverjir flytji starfsemi úr landi en ég efast um að það verði neinn fjöldaflótti þess vegna,“ segir Þórólfur í samtali við Vísi.

Sjá einnig:Vilja setja hátekjuskatt á laun yfir 1,5 milljónir

„Ég efast nú um að menn séu að tala um eitthvað annað en einhver örfá prósentustig sem myndu bætast við. Ég held að menn séu ekki að tala um að skella á 30-40 prósent hækkun á þetta skattstig. En þó að það yrði einhver 1-3 prósent hækkun á stiganum þarna og ef að þetta er mjög hátt, þannig að það hitti fyrir tiltölulega fáa, ef við erum að tala um einhver hundruð manna og kvenna.“

Hann segir jafnframt að ef hátekjuskattur yrði skilgreindur á meðaltekjur horfi málið öðruvísi við.

„Þá má búast við að einhverjir dragi úr vinnu. Þetta slær svolítið þá sem eru við bilið. Það hefur svona tilhneigingu til að klumpast við efri partinn á bilunum, að fólk sé að stíla á það að það vinni ekki meira en svo að það lendi ekki í hátekjuskattinum. Svo getur það haft áhrif á hópa sem eru að hugsa um hvort þeir eiga að vera á vinnumarkaðnum eða ekki, en það á nú sjaldan við um þá sem eru á hátekjuskatttekjum. Það á miklu frekar við í kringum frítekjumörk og þess háttar. Ég held að þetta hafi nú ekkert rosaleg áhrif.“

Hátekjuskattar Astrid Lindgren

Aðspurður segir Þórólfur að misjöfn reynsla sé af notkun hátekjuskatts.

„Menn voru með mjög há skatthlutföll bæði í Bretlandi og Svíþjóð fyrir 30-40 árum síðan. Og það er nú frægt dæmi sem að Astrid Lindgren nefndi þegar hún fann út að hún væri að borga 102 prósent skatt. Þá skrifaði hún fræga grein í Expressen þar sem hún gerir grín að þvi og felldi reyndar Olof Palme í næstu kosningum á eftir með þeirri grein. Þannig að menn höfðu svona frekar slæma reynslu af mjög háum hátekjusköttum. En það er ekki þar með sagt að það eigi við um allan skalann,“ segir Þórólfur í samtali við Vísi.

Greinin sem hann vísar í er greinin Pomperipossa i Monismanien eftir barnabókahöfundinn ástsæla Astrid Lindgren sem birtist í Expressen 3. mars árið 1976. Þar skrifaði hún ævintýri um barnabókahöfund sem trúði á velferðarríki en komst að því að hún borgaði yfir hundrað prósent í skatt.

„Þar var yfir hundrað prósent skattur sem hún var að borga þannig að það borgaði sig hreinlega fyrir hana að minnka tekjurnar og þá jukust ráðstöfunartekjurnar.“

Auðvelt að hafa eftirlit

Hann segist þó ekki gera ráð fyrir að margir muni taka til slíkra ráða, verði af hátekjuskatti hér á landi en að það sé þó möguleiki á því.

„Já það er alltaf möguleiki á því, ef að menn geta skilgreint tekjurnar sínar öðruvísi og menn þurfa þá að hafa eitthvað fyrir því að takast á við það. Það gæti orðið til þess að fólk stofnaði meira einkahlutafélög og reynt að skilgreina stærri hluta teknanna sem fjármagnstekjur og svo framvegis. Það er eiginlega það sem um er að ræða, möguleikann sem gæti gerst.“

Hann bendir þó á að líklega væri þá ekki um fjölmennan hóp að ræða og því auðvelt að hafa eftirlit með þeim.

„En ef þetta hittir ekki fyrir mjög marga þá eru það líka mjög fáir sem verða fyrir þeirri freistni og þá er líka tiltölulega auðvelt að hafa eftirlit með þeim. En ef þú ert að láta þetta gerast langtum neðar þannig að venjulegt launafólk færi allt í einu að velta fyrir sér hvort það eigi að stofna fyrirtæki kringum sjálft sig, þá ertu kominn á allt annan stað.“


Tengdar fréttir

Vilja setja hátekjuskatt á laun yfir 1,5 milljónir

Formaður VG segir að auknar álögur á sjávarútveg og ferðaþjónustu dugi ekki til að stoppa upp í gatið sem heilbrigðisþjónusta í landinu stendur frammi fyrir. Hugmyndir um hátekjuskatt snúist um að búa til réttlátara skattkerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×